Tryggvi Pálsson, framkvæmdarstjóri fjármálasviðs Seðlabanka Íslands, segir í viðtali við Viðskiptablaðið að vafalaust hefði mátt gera sitthvað á annan veg innan Seðlabankans, þegar horft er yfir þá mynd sem blasir við eftir bankahrunið.

Hann segir að fyrst og fremst þurfi þó að horfa til þeirra sem „keyrðu  útaf“, þ.e. stjórnenda og stærstu eigenda bankanna, þegar horft er til þess hvernig fór fyrir íslenska bankakerfinu.

„Það var alls staðar tekið eftir því á erlendum vettvangi að stjórnendur íslensku bankanna voru meira og minna ungt reynslulítið fólk, eins og reyndar einnig margir þeirra sem voru í hópi stærstu eigenda bankanna.

Það má horfa á þetta svona: Ungur ökumaður sem er nýkominn með bílpróf fær kröftugan bíl til þess að aka um göturnar. Hann keyrir útaf eftir mikinn hraðakstur. Þá kalla einhverjir, hvar eru vegriðin og hvers vegna var vegurinn ekki betri á þeim stað þar sem ekið var útaf. Hvar var lögreglan og hvað var Vegagerðin að hugsa?

Frumorsök þess að keyrt var útaf var vegna þess að ekki var ekið í samræmi við aðstæður. Það nákvæmlega sama á við um stjórnendur og eigendur bankanna. Þeir bera mesta ábyrgð á því hvernig fór fyrir bönkunum. Eftirlitsstofnanir og stjórnvöld taka ekki stefnumarkandi ákvarðanir innan einkarekinna fyrirtækja, þó ýmislegt sé hægt að gera þegar neyðaraðstæður eru komnar upp. Frumorsök þess að bankarnir hrundu liggur í röngum ákvörðunum þeirra sem stýrðu bönkunum á árunum 2003 og fram að falli þeirra haustið 2008.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .