Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabanka Íslands, segir að málarekstur gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir Landsdómi muni e.t.v. leiða fram eitthvað nýtt um aðdraganda bankahrunsins, þ.e. ef málið fer það langt að fá málsmeðferð fyrir dómnum. Aðalatriðin liggi samt þegar fyrir. Hann segist sakna þess að horft sé til þess að neyðarlögin voru sá bjarghringur sem forðaði því að efnahagslífið sogaðist niður í þann svelg sem stóru bankarnir voru að hverfa í.

"Meira hefði vissulega þurft að gera fyrir fall bankanna og það tímanlega. Deila má um hvenær og hvað hefði átt að gera en hrun bankanna er óumdeilanleg staðreynd. Það sem aldrei er minnst á er hversu miklu neyðarlögin björguðu. Ef farið hefði verið eftir tillögum stjórnenda bankanna eða ráðgjöf sumra sérfræðinga, t.d. um að kljúfa bankana í fjárfestingar- og viðskiptabanka þegar í óefni var komið, hefði illa farið. Verst hefði þó farið fyrir samfélaginu ef bankarnir hefðu steypst um koll án aðgerða stjórnvalda með setningu neyðarlaganna. Lykillinn að því að hægt var að halda efnahagslífinu lifandi var að gefa innlánum forgang og flytja aðeins innlán og útlán á Íslandi yfir í nýju bankana. Ef hvorki einstaklingar né fyrirtæki hefðu getað haft aðgang að innlánum sínum og fengið nauðsynlega þjónustu banka, sparisjóða og greiðslukortafyrirtækja hefði efnahagsáfallið orðið mun meira."

Í Viðskiptablaðinu í dag er ítarlegt viðtal við Tryggva.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .