Tryggvi Þór Herbertsson ætlar að hætta í pólitík og hyggst snúa aftur til starfa á sviði hagfræði og viðskipta. Þetta upplýsti hann á Facebook síðu sinni í kvöld eftir að úrslit í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi voru tilkynnt. Tryggvi stefndi á fyrsta sætið en hlaut ekki kosningu í neitt af sex efstu sætunum sem bindandi kosning var um.

Hér að neðan má sjá Facebook færslu Tryggva frá því fyrr í kvöld:

„Nú er prófkjörinu lokið. Ég leggst sáttur á koddann í kvöld. Sýndi keppinautum mínum drengskap og heiðarleika í hvívetna í baráttunni, en það er í mínum huga það allra mikilvægasta. En nú er þessu hliðarspori mínu í pólitík lokið og ég sný mér aftur að því sem ég kann best - hagfræði og viðskipum. Það verður óneitanlega munur að losna við hælbítana og illt umtal sem þeim fylgir. Nú er verkefnið að snúa bökum saman og vinna sem einn maður að sigri Sjálfstæðisflokksins í kosningunum í vor!"