Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hefur gagnrýnt alþjóðlega lánardrottna fyrir að samþykkja ekki nýjar umbótatillögur landsins. BBC News greinir frá þessu.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið hafa hafnað tillögum Grikkja, sem meðal annars fela í sér hærri skatta á fyrirtæki og hina ríku auk hækkunar á virðisaukaskatti.

Tsipras bendir á að sömu lánardrottnar hafi ekki hafnað Írlandi eða Portúgal þegar löndin lögðu fram svipaðar tillögur í samningaviðræðum við kröfuhafa. Annað hvort vildu lánardrottnarnir ekki ná samningum eða þeir þjónuðu einhverjum öðrum hagsmunum.

Grikkland mun þurfa að standa skil á 1,6 milljarða evra afborgun af láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þann 30. júní næstkomandi, en ella mun ríkissjóður landsins fara í þrot og landið hugsanlega hverfa á brott úr evrusamstarfinu.