Talið er að Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, muni kynna til leiks nýjar mögulegar lausnir á skuldavanda ríkisins á neyðarfundi evruríkjanna í dag.

Tsipras mun fara fram á að 30 prósent skulda Grikklands verði afskrifaðar eftir að gríska þjóðin hafnaði skilmálum lánadrottna í þjóðaratkvæðagreiðslu á sunnudag.

Evruríkin hafa hvatt Grikki til að koma með „alvöru“ tillögur að samningaborðinu, en hætta er á því að Grikkir lendi í greiðsluþroti á samtals 323 milljarða evra skuldum sínum.

Grískir bankar verða áfram lokaðir á þriðjudag og miðvikudag. Evrópski seðlabankinn neitar að lána þeim meiri pening og þegnar Grikklands reyna nú eins og þeir geta að taka út peninga af ótta við að missa allt sitt.

Tsipras gæti þurft að gefa allverulega eftir í viðræðum sínum við lánadrottna en þó getur verið að þjóðaratkvæðagreiðslan hafi gefið honum byr undir báða vængi. Hins vegar er ljóst að þolinmæði Evrópu er senn á þrotum og Grikkir þurfa að mæta með góðar tillögur til leiks í dag. Annars verður líklegra með degi hverjum að þeir yfirgefi evrusvæðið.