„Það eru margir að búa sig undir digitalvæðingu á afþreyingu og við erum þar á meðal,“ segir Björn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Senu, en stofnað hefur verið nýtt svið innan fyrirtækisins, viðskiptaþróunar- og tæknisvið.

„Fjárfestingar okkar munu fara í það að búa Senu undir að verða sterkara og einbeittara afþreyingarfyrirtæki. Við búum yfir gríðarlegu magni af efni í dag. Þar á meðal er um 70% af allri seldri íslenskri tónlist í dag, gríðarmikið af kvikmyndum og hljóðbókum og við erum að vinna í rafbókunum. Þá erum við að gera samninga við stóra aðila erlendis til að ná í mjög mikið af erlendu efni. Markmiðið hjá okkur er því að vera með tunnu fulla af afþreyingu og vera svo eins konar heildsali á afþreyingu fyrir alla þá sem selja stafrænt efni, hvort sem það er Síminn, 365 miðlar eða Skjárinn.“

Búið er að ráða yfirmann þessa nýja sviðs, Pál V. Jónsson, en hann er að ljúka störfum núna sem yfirmaður tæknisviðs Skjásins. „Hann hefur verið lykilmaður hjá Skjánum og er mikill fengur fyrir okkur í honum,“ segir Björn.