Tuttugu stærstu eigendur hlutafjár íslenskra félaga í Kauphöll Íslands eiga samtals um 70% markaðsvirðis hlutafjár, samkvæmt Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka. Stærsti einstaki fjárfestirinn er Lífeyrissjóður verslunarmanna, en hlutabréfaeign hans er 37,2 milljarða króna virði, sem er um 9,2% af heildarverðmæti skráðra hlutabréfa á Íslandi.

Greiningardeildin hefur tekið saman upplýsingar um 20 stærstu hluthafa þeirra 10 íslensku félaga sem skráð eru á Aðallista Kauphallar. Byggt var á gögnum frá Kauphöllinni að viðbættum upplýsingum sem birtar hafa verið opinberlega um hlutafjáreign stærstu erlendu eigenda Össurar. Félögin eru Eimskip, Hagar, Icelandair, Marel, Nýherji, Reginn, TM, VÍS, Vodafone og Össur. Samanlagt markaðsvirði félaganna í lok síðustu viku var 403 milljarðar króna eða sem nemur 24% af landsframleiðslu ársins 2012.

Listar yfir 20 stærstu hluthafa félaganna veita upplýsingar um eignarhald sem samsvarar 337 mö.kr. eða 84% af samanlögðu markaðsvirði félaganna. Af þessu að dæma ætti eignarhald íslenskra aðila að vera um 75% og eignarhlutur erlendra aðila um fjórðungur. Stærstu erlendu fjárfestarnir á íslenska hlutabréfamarkaðinum eru danska fjárfestingarfélagið William Demant Invest sem á 41% hlut í Össuri og sjóðir bandaríska eignarhaldsfélagsins Yucaipa Companies eiga 25% í Eimskip. Að öðru leyti er erlenda hluthafa helst að finna á hluthafalistum Marel og Össurar.

„Það kemur líklega fáum á óvart lífeyrissjóðir eru stærstu hluthafar íslenska hlutabréfamarkaðarins. Með beinum hætti eiga lífeyrissjóðir a.m.k. 31% af hlutabréfum íslenskra félaga sem skráð eru í Kauphöll Íslands. Til viðbótar eru lífeyrissjóðir óbeinir eigendur með því að eiga hlutdeildarskírteini í sjóðum sem reknir eru af rekstrarfélögum. Að auki eiga lífeyrissjóðir ríflegan meirihluta í Framtakssjóði Íslands, sem þar til nýverið var einn stærsti eigandi skráðra félaga í Kauphöllinni. Það verður því ekki annað sagt en að lífeyrissjóðirnir hafi staðið vel að því að reisa við íslenskan hlutafjármarkað í kjölfar hrunsins og notið góðs af auknum stöðugleika og verðhækkun síðustu misserin,“ segir í markaðspunktunum. Sjá má stærstu hluthafana á íslenska hlutabréfamarkaðnum á meðfylgjandi mynd.

Tuttugu stærstu fjárfestarnir á íslenska hlutabréfamarkaðnum.
Tuttugu stærstu fjárfestarnir á íslenska hlutabréfamarkaðnum.