„Það þarf að endurskoða kostnaðinn við þennan málaflokk og semja við ríkið um að sveitarfélögin fái meira en nú,“ sagði Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í gær. Þar kom fram að uppsafnaður rekstrarhalli af þjónustu við fatlaða frá því að sveitarfélögin tóku við þjónustunni árið 2011 verði orðinn um tveir milljarðar í lok þessa árs. Morgunblaðið greinir frá málinu.

Karl sagði í erindi sínu að tekjur sveitarfélaga vegna þjónustunnar hefðu hækkað umfram verðlagsþróun um 3,7 milljarða á fjögurra ára tímabili, en engu að síður hefði safnast upp halli þar sem þeim sem njóta þjónustunnar hefur fjölgað mikið frá ársbyrjun 2011.

Í framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðra er gerð ný krafa um að í stað herbergjasambýla komi sjálfstæð búseta og segir Karl að ríki og sveitarfélög þurfi að semja áætlun um hvernig eigi að svara þeim. Gert er ráð fyrir að breytingarnar kosti sveitarfélögin 1,3 milljarða króna á ári til ársins 2020.