Tveir af ríkustu viðskiptajöfrum Brasilíu hafa verið handteknir í tengslum við rannsókn á gríðarlega umfangsmiklu spillingamáli hja ríkisolíufélaginu Petrobras. BBC greinir frá.

Marcelo Odebrecht og Otavio Azevedo eru forstjórar tveggja af stærstu byggingaverktökum Brasilíu. Því er haldið fram að fyrirtæki þeirra ásamt öðrum hafi mútað spilltum stjórnmálamönnum til að fá risasamninga við olíufélagið Petrobras.

Þessi skandall hefur valdið miklum usla innan brasilíska verkamannaflokksins og eru hátt settir embættismenn sakaðir um að hafa þegið mútur.

Það vekur hins vegar athygli að Dilma Rousseff, forseti Brasilíu, hefur verið hreinsuð af öllum ásökunum þrátt fyrir að hafa stýrt Petrobras á meðan helsta spillingin átti sér stað.