Lífeyrissjóður verslunarmanna og og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) eru að nálgast eða farnir að reka sig í takmarkanir sem sjóðunum eru settar þegar kemur að fjárfestingum þeirra í bréfum skráðra félaga. Báðir lífeyrissjóðirnir hafa lítið svigrúm til fjárfestinga í fjórum til fimm félögum, að sögn greiningardeildar Arion banka. Lífeyrissjóðir mega ekki eiga meira en 15% af hlutafé félaga. Þeir geta þótt átt altt upp undir 20% í innlendum samlagshlutafélögum á borð við Framtakssjóð Íslands.

Þetta á við um Eimskip, TM, Vodafone, Icelandair og Reginn í tilviki Lífeyrissjóðs verslunarmanna en Vodafone, VÍS, TM og Haga í tilviki LSR. Lífeyrissjóður Verslunarmanna er stærsti einstaki hluthafi á íslenskum hlutabréfamarkaði og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) fjórði stærsti.

Eiga 30%

Greiningardeild Arion banka fjallar um málið í Markaðspunktum sínum í dag og segir að í ljósi takmarkana á eignarhaldi og núverandi eignarhalds þessara sjóða geti þeir átt erfitt með að ná hlutfalli innlendrar hlutabréfaeignar sem fjárfestingastefnur sjóðanna gera ráð fyrir miðað við óbreyttar markaðsaðstæður.

Í Markaðspunktunum segir ennfremur, að lífeyrissjóðir eigi beint a.m.k. 30% af markaðsvirði þeirra 10 hlutafélaga sem skráð eru á Aðallista Kauphallarinnar.

Greiningardeildin segir:

„Eftir að innlend hlutabréfaeign lífeyrissjóðanna þurrkaðist nánast út árið 2008 hafa þeir smám saman verið að auka við innlenda hlutabréfaeign sína á ný og þá sér í lagi það sem af er yfirstandandi ári. Innlend hlutabréfaeign lífeyrissjóðanna hefur aukist meira sem hlutfall af hreinni eign til greiðslu lífeyris á fyrstu sjö mánuðum ársins heldur en hún gerði allt árið 2012 og er nú í fyrsta skipti í fimm ár komin yfir 10% af hreinni eign sjóðanna .“