Árið 2008 luku 58 Íslendingar doktorsnámi hér á landi og erlendis, 25 konur og 33 karlar. Þetta er nokkuð svipaður fjöldi og á hinum síðari árum en árið 2007 luku 48 doktorsnámi og árið 2006 voru þeir 58.

Í fréttabréfi Rannís kemur fram að um tvisvar sinnum fleiri konur ljúka nú doktorsprófi á ári hverju en fyrir 10-15 árum. Árið 1990 voru konur 18% útskrifaðra meðan þær voru 43% útskrifaðra árið 2008. Frá upphafi talninga hefur fjölgað hlutfallslega mjög í hópi kvenna og virðist sem að ákveðnum toppi hafi verið náð árið 2005 þegar konur voru 60% útskrifaðra doktora. Síðan hafa karlar mælst í nokkrum meirihluta útskrifaðra doktora.

Aldrei fleiri stundað doktorsnám

Aldrei hafa eins margir lagt stund á doktorsnám hér á landi og árið 2008 þegar taldir eru 257 doktorsnemar.  Til samanburðar má nefna að árið 2000 mátti finna um 50 íslenska doktorsnema og um 100 árið 2003.  Konur eru nú um 60% doktorsnema og gefur það e.t.v. tilefni til að vænta þess að hlutfall útskrifaðra jafnist á næstu árum.  Árið 2008 kom um 30% doktora úr félagsvísindum og 28% úr raunvísindum, að þessu leytinu aðgreina Íslendingar sig frá hinum Norðurlöndunum þar sem mikill meirihluti útskrifta sér stað innan heilbrigðisvísinda. Um 20% íslenskra nema lauk námi á því sviði árið 2008.

Konur eru að jafnaði eldri en karlar þegar þær ljúka doktorsgráðu sinni, árið 2008 voru konur að meðaltali um 43 ára og karlar um 39 ára.  Sama hefur verið upp á teningnum á hinum Norðurlöndunum samkvæmt nýjustu mælingum.