Fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll í sumar er tvöfalt meiri en Isavia bjóst við, að því er kemur fram í Morgunblaðinu. Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í samtali við blaðið að spá Isavia hafi verið notuð til að ákvarða hversu mörg sumarstörf fyrirtækið myndi ráða í. Nú sé hins vegar verið að ráða fleiri starfsmenn.

Guðni segir að unnið sé við að fjölga öryggisleitarfæriböndum og auka sjálfsstýringu í öryggisleitinni. Helstu álagsdagar séu föstudagar, laugardagar og sunnudagar og farþegum á þessum dögum sé ráðlagt að mæta allt að þremur tímum fyrir brottför.

Viðskiptablaðið greindi á dögunum frá umtalsverðum framkvæmdum í komusal Leifsstöðvarinnar, en hann stækkar um 25% í lok sumars.