Mikið hefur verið rætt og ritað um möguleg kaup frumkvöðulsins og auðjöfursins Elon Musk á samfélagsmiðlinum Twitter. Nú greina fjölmiðlar vestanhafs frá því að kaupin gætu gengið í gegn í dag, 11 dögum eftir að Musk tilkynnti að hann ætli að gera yfirtökutilboð.

Stjórn Twitter og Musk hafa fundað síðan í gær, en samkvæmt heimildum Wall Street Journal gæti kaupverðið orðið 54,2 dalir á hlut. Ekkert liggi þó fyrir í þeim efnum.

Sjá einnig: Auknar líkur á að Musk eignist Twitter

Musk varð nýlega stærsti hluthafi Twitter eftir að hafa eignast 9,2% hlut í samfélagsmiðlinum. Í kjölfarið tilkynnti hann um 43 milljarða dala yfirtökutilboð án þess að greina frá hvernig hann hygðist fjármagna kaupin. Stjórn Twitter innleiddi þá svokallaða eitraða pillu (e. poison pill) til að koma í veg fyrir að Musk geti stækkað verulega við hlut sinn í félaginu.

Gengi bréfa Twitter hefur hækkað um 3% frá opnun markaða og stendur í 50,4 dölum á hlut, þegar þessi frétt er skrifuð.