Tyrkir ætla að hætta að leggja 15% skatt á fjárfestingar útlendinga, en löggjöf þess efnis verður væntanlega samþykkt á tyrkneska þinginu fyrir þinghlé í lok júní. Þetta sagði Kemal Unakitan, fjármálaráðherra Tyrklands, í gær. Breytingin verður gerð til að mæta kröfum Evrópusambandsins um jafnræði milli heimamanna og útlendinga þegar kemur að skattheimtu, að því er Unakitan sagði á blaðamannafundi í Ankara, sem hann hélt ásamt Ali Babacan, efnahagsmálaráðherra Tyrklands og höfuðsamningamanni Tyrklands gagnvart Evrópusambandinu.

Ef löggjöfin verður að veruleika verður skattheimta á tekjur og fjármálagjörninga þeirra sem ekki búa í Tyrklandi lögð af. Skatthlutfall á tyrkneska ríkisborgara verður lækkað úr 15 í 10%. Ríkið mun halda 15% skatti á innlán fjárfesta í heimalandinu.

Tyrknesk stjórnvöld hyggjast með þessu endurvekja traust fjárfesta á efnahagi Tyrklands, en hlutabréfavísitalan í Istanbúl hefur lækkað um meira en fimmtung og tyrkneska líran um annað eins, síðan fjárfestar hófu að draga fjármagn af hinum svokölluðu vaxandi mörkuðum í síðasta mánuði, að sögn vegna hækkandi vaxta annars staðar.

Þetta áfall hefur vakið minningar með Tyrkjum um fjármálakreppuna þar í landi árið 2001, en efnahagslífið og þá sér í lagi bankakerfið hefur sætt gagngerum grunnbreytingum síðan og sérfræðingar eru nú þeirrar skoðunar að undirstöðuatriði tyrkneska efnahagslífsins séu í góðu lagi. "Þetta er sannarlega skref í rétta átt, en ekki nægt til að stöðva þróunina," segir Mahmut Kaya, yfirmaður rannsókna hjá Granti Securities verðbréfamiðluninni í Istanbúl.