Samgöngunefnd Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum hefur ákveðið að sekta frumkvöðlafyrirtækið Uber um 7,3 milljónir dala fyrir að veita stjórnvöldum ekki nægar upplýsingar um þjónustu og starfsemi fyrirtækisins. Fjárhæðin jafngildir tæpum milljarði íslenskra króna. BBC News greinir frá málinu.

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að Uber hefði ekki skilað lögbundnum skýrslum til stjórnvalda, sem meðal annars eiga að innihalda upplýsingar um slys sem orðið hafa á fólki við akstur leigubifreiða.

Sótt hefur verið að leigubílafyrirtækinu víða um heiminn að undanförnu. Þannig hefur það mætt mikilli mótstöðu í Kanada, Frakklandi, Hong Kong og Bretlandi og fleiri löndum. Þá stóðu leigubílstjórar í Frakklandi fyrir ofbeldisfullum mótmælum gegn starfsemi fyrirtækisins fyrir skömmu.

Uber hefur þegar tilkynnt að úrskurðinum verði áfrýjað, en til þess hefur fyrirtækið þrjátíu daga.