Íslensku bankarnir fá sérkafla í umfjöllun greiningardeildar svissneska bankans UBS um norræna banka sökum þess hve frábrugðin staða þeirra og rekstrarumhverfið er í samanburði.

UBS mælir með því að fjárfestar beini sjónum að tveimur þáttum í rekstri íslensku bankanna á komandi misserum.

Annars vegar fjármögnun, en í ljósi þess hve hátt skuldatryggingaálag bankanna sé verði skuldabréfaútgáfa á heildsölumarkaði of kostnaðarsöm og því verði bankarnir að leita annarra leiða í fjármögnun sinni.

Hins vegar gæði eignasafna sem nú þegar sýna merki um erfiðleika.

Sérstaklega telur UBS ástæðu til að hafa áhyggjur af lánum til eignarhaldsfélaga og fasteignalánum sem munu leiða til aukinna útlánatapa á næstunni. Þótt UBS telji ekki að bankarnir standi frammi fyrir fjármögnunarerfiðleikum til skamms tíma litið sé sú áhætta fyrir hendi.

Í versta falli gætu lánin til eignarhaldsfélaganna rýrnað ört og leitt til taps, sem aftur gæti valdið útflæði af innlánsreikningum og að heildsölumarkaðir lokist.

Gæði eignasafna bankanna eru af þessum sökum í brennidepli UBS þar sem þróun þeirra gæti annars vegar komið niður á tekjum þeirra og hins vegar valdið fjármálakreppu.

Umsögn um einstaka banka er óbreytt en UBS mælir með því að fjárfestar losi sig við hlutabréf þeirra.