Vopnaðir menn í felubúningum gerðu innrás í höfuðstöðvar orkufyrirtækisins Naftogaz í Úkraínu í morgun að sagt er vegna glæparannsóknar. Samkvæmt frétt Reuters voru mennirnir vopnaðir og grímuklæddir.

Átök um Naftogaz var ein megin ástæða fyrir ágreiningi Rússa og Úkraínumanna í janúar þegar skrúfað var fyrir gas til Evrópuríkja. Rússar sögðu Úkraínumenn þá vera að stela gasi.

Naftogaz á að borga rússneska fyrirtækinu Gazprome reikning fyrir febrúar á næstu dögum.

Maryna Ostapenko, talsmaður öryggisþjónustu Úkraínu SBU, sagði fréttamönnum að um hefðbundna rannsókn væri að ræða.

„Það er óþarfi að gera veður út af því. Þetta er rannsóknarteymi, ekki fólk með grímur. Ekki láta neina hjá Naftogaz ljúga því að ykkur að þeir hafi ekki vitað um þetta. Það vissu það allir að hópur myndi koma og fjarlægja skjöl... Þetta er allt innan ramma laganna,” sagði Maryna Ostapenko.

Talsmaður Naftogaz var þó greinilega ekki á sama máli og sagði fréttamönnum í síma að grímuklæddri menn hefðu rutt öryggisvörðum úr vegi, án þess að sýna nein skilríki. Um væri að ræða 15 til 20 menn.

Yulia Tymoshenko, forsætisráðherra Úkraínu, hefur óskað eftir að aðgerðir SBU verði stöðvaðar.