Doktor í arkítektúr segir að reikna megi með því að um 10% af árlegri veltu á byggingamarkaði megi rekja til byggingargalla. Þeir séu tilkomnir þar sem ekki sé gætt nægilega að því að hanna hús með tilliti til veðuraðstæðna. Þetta segir í viðtali í Morgunblaðinu við Ævar Harðarson, sem útskrifaðist nýlega sem doktor í arkítektúr frá NTNU sem er tækniháskóli í Þrándheimi í Noregi.

Í doktorsverkefni sínu fjallar hann um samhengi hönnunartengdra byggingargalla á húsum sem hönnuð eru að hætti nútímabyggingarlistar. Hann segir að borið hafi á því að litið hafi verið á hús sem listaverk í stað þess að huga að veðurfari. „Hús eru nytjahlutir og við byggingu þeirra þarf að miða við veðurfar og ég tel að menn hafi vanrækt það,“ segir Ævar.

„Auðvitað eru ekki gallar í öllum þessum húsum en hægt er að miða við að um 10% af veltu á byggingamarkaði séu tilkomin vegna þessara galla. Það er meðaltalið. Svo getur verið miklu dýrara að gera við sumar nútímabyggingar.“