Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti í gær þá ákvörðun slitastjórnar LBI hf., gamla Landsbankans, að tæplega 3,9 milljarða króna krafa í eigu bandaríska sjóðsins Morgan Stanley Senior Funding, væri forgangskrafa í búið. Niðurstaðan byggði m.a. á því að innstæður í eigu erlendra fjármálafyrirtækja væru tryggðar samkvæmt lögum um Tryggingasjóð innstæðueigenda.

Innstæðan var upphaflega í eigu breska tryggingafélagsins Chelsea Building Society, en eftir að slitastjórn hafði viðurkennt kröfuna sem forgangskröfu framseldi tryggingafélagið kröfuna til Morgan Stanley.

Málið snýst um það hvort krafan geti talist innstæða í skilningi laga vegna þess að með neyðarlögunum var röð krafna breytt þannig að innstæður voru teknar framar almennum kröfum í kröfuröðinni. Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að um innstæðu hefði verið að ræða.

Þá þurfti að ákvarða hvort um tryggða innstæðu væri að ræða, þar sem aðeins tryggðar innstæður ætti að skilgreina sem forgangskröfur. Sagði í dómnum að þótt Chelsea Building Society væri fjármálafyrirtæki þá væri orðalag undantekningarákvæðisins í íslensku lögunum takmarkað við þau fjármálafyrirtæki sem aðilar væru að tryggingasjóðnum. Chelsea Building Society hefði ekki verið aðili að sjóðnum og þar með félli innstæðan undir skilgreiningu laganna og væri þar af leiðandi innstæða og forgangskrafa í þrotabú LBI.