Skýrr heldur hina árlegu Haustráðstefnu sína á Hilton Nordica næstkomandi föstudag, 12. september.

Þórólfur Árnason forstjóri Skýrr segir að óhætt sé að fullyrða að þetta verði stærsta ráðstefna ársins á sviði upplýsingatækni en liðlega 400 ráðstefnugestir hafa nú þegar skráð sig til leiks og enn er að bætast við.

„Það er engan Engan krepputón að heyra í slíkum tölum,“ segir Þórólfur.

„Við leggjum líka mikið í undirbúninginn og öll áhersla er á faglega þekkingarmiðlun fróðleiks. Í boði eru fimm mismunandi fyrirlestralínur þar sem verða fluttir tæplega fjörtíu fyrirlestrar af fimmtán erlendum og tuttugu íslenskum sérfræðingum. Við sjáum það á fjölda skráninga að það er mikil eftirspurn fyrir faglega þekkingarmiðlun. Vafalaust eru ófáir ráðstefnugestir að skima eftir tækifærum til aukinnar hagkvæmni og skilvirkni í rekstri og þar spila tól upplýsingatækninnar lykilhlutverk.“

Lykilræður frá Google og Marcus Murray

Í tilkynningu frá Skýrr kemur fram að fyrirlestralínur Haustráðstefnu Skýrr 2008 eru fimm talsins og skiptast í Microsoft-viðskiptalausnir, Oracle-grunntækni, Oracle-viðskiptalausnir, viðskiptagreind og öryggislausnir.

Þórólfur bendir á að tveir lykilræðumenn setji svip sinn á Haustráðstefnu Skýrr að þessu sinni, þeir Dr. Trausti Kristjánsson hjá Google og Marcus Murray hjá TrueSec.

„Dr. Trausti flytur fyrirlesturinn Google og Wiki-veröldin. Hann er þróunarstjóri talgreiningar hjá Google og mun í fyrri lykilræðu Haustráðstefnu atvinnulífsins greina frá helstu verkefnum sínum hjá Google, segja frá óvenjulegu vinnuumhverfinu og skyggnast inn í framtíðina. Dr. Trausti starfaði áður hjá IBM og Microsoft. Hann er rafmagnsverkfræðingur frá HÍ og með doktorspróf í tölvunarfræði frá Kanada,“ segir Þórólfur.

Fyrirlestur Marcus Murray ber yfirskriftina Live Hacking.

„Marcus er eini Svíinn sem ber titilinn Microsoft Security MVP, sem stendur fyrir Microsoft Valued Professional. Hann er vinsæll fyrirlesari á heimsvísu, sem hefur sérhæft sig í öryggislausnum fyrir Microsoft-umhverfið með áherslu á öryggisúttektir og varnir gegn árásum. Marcus mun sýna hvernig tölvuþrjótar ráðast á Microsoft Windows-umhverfi og brjótast inn á staðarnet viðkomandi fyrirtækis. Á ráðstefnunni verður í framhaldinu farið yfir hvað fyrirtæki þurfa að gera til að geta varist tölvuinnbrotum af þessu tagi,“ bætir Þórólfur við.

Boðið til síðdegisveislu

Þórólfur segir að fagráðstefnur af þessari stærðargráðu séu tiltölulega sjaldgæfar í upplýsingatækni og órjúfanlegur hluti af þeim er auðvitað að sýna sig og sjá aðra.

„Til að bregðast við því og hefja veturinn á skemmtilegan hátt endum við ráðstefnuna með glæsilegum haustfagnaði á Hilton Nordica. Við ætlum með öðrum orðum að bjóða ráðstefnugestum til viðamikillar síðdegisveislu með veitingum að hætti landsliðskokkanna á Vox, töfrandi tónum djassgeggjara og sniðugum skemmtiatriðum af ýmsu tagi,“ segir Þórólfur.