Um 44% þeirra sem tóku afstöðu í skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 fannst Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafa staðið sig mjög vel eða frekar vel í embætti forsætisráðherra. Þar af töldu 12,1% hann hafa staðið sig mjög vel, að því er greint er frá í Fréttablaðinu í dag. Um þriðjungi fannst hann hvorki hafa staðið sig vel né illa. Alls sögðust 22,5% telja Sigmund Davíð hafa staðið sig mjög eða frekar illa í starfi.

Um þrír fjórðu framsóknarmanna og sjálfstæðismanna sögðust ánægðir með störf forsætisráðherra. Aðeins um þrettán prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar og fimmtán prósent kjósenda Vinstri grænna töldu hann hafa staðið sig vel í embætti. Um 24% stuðningsmanna Pírata töldu Sigmund hafa staðið sig vel og um þriðjungur kjósenda Bjartrar framtíðar.