Innanríkisráðherra birti á dögunum skýrslu nefndar um skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum. Í skýrslunni kemur fram að nauðsynlegt sé að byggja upp nýtt rannsókna- og ákæruvaldsembætti á sviði efnahagsbrota sem taki við verkefnum sérstaks saksóknara. Tvær leiðir voru sagðar færar.

Annars vegar að setja á stofn nýja rannsókna- og ákærustofnun sem svipaði til embættis sérstaks saksóknara. Peningaþvættisskrifstofa yrði færð frá ríkislögreglustjóra til nýju stofnunarinnar og sett yrði upp sérstök deild til að sinna endurheimtum ólögmæts ávinnings af brotum. Síðari leiðin gengur út á hið sama en að auki yrðu verkefni skattrannsóknarstjóra færð inn í nýja embættið.

Gert er ráð fyrir að hið nýja embætti verði öllu minna í sniðum en embætti sérstaks saksóknara er nú. Í kostnaðarútreikningum er gert ráð fyrir að starfsmenn nýja embættisins verði 50 en starfsmenn sérstaks saksóknara eru 90. Kostnaðurinn við rekstur nýja embættisins verður 736 milljónir króna á ári. Það er um 58% af því sem kostnaðurinn við rekstur embættis sérstaks saksóknara var á síðasta ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .