Um helmingur þeirra 193 nemenda sem brautskráðust frá Háskólanum í Reykjavík í Háskólabíói í dag hafa nú þegar fengið vinnu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá skólanum og þar er vísað í könnun sem skólinn gerði á meðal útskriftarnemenda. Þar segir einnig að 12% nemendanna ætli beint í frekara nám.

Af þeim 193 nemendum sem brautskráðust frá Háskólanum í Reykjavík í dag eru 37 með meistaragráðu, 124 með bakkalárgráðu og 32 með diplómagráðu. Flestir útskriftarnemanna eru úr viðskiptadeild eða 75. 56 nemendur útskrifuðust með próf úr tækni- og verkfræðideild, 31 nemandi útskrifaðist úr lagadeild og sami fjöldi frá tölvunarfræðideild. Rúm 60% þeirra sem útskrifuðust í dag eru karlar og tæp 40% eru konur. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík.