Tryggingahluti Sjóvár lenti í fanginu á skilanefnd Glitnis, Íslandsbanka og Seðlabanka Íslands eftir að fyrrum eigandi þess, Milestone, hafði tæmt fjárhirslur félagsins.

Nýju eigendurnir lögðu Sjóvá til um 16 milljarða króna og ætluðu að endurheimta það fé með því að selja félagið. Mest kom frá íslenska ríkinu, 11,6 milljarðar króna. Sú eign var síðan framseld til Seðlabankans.

Í upphafi ársins 2010 hófst söluferli sem skilaði því að hópur undir forystu Heiðars Más Guðjónssonar taldi sig kominn langleiðina með að kaupa Sjóvá. Seðlabankinn neitaði hins vegar að selja Heiðari vegna þess að félag í hans eigu, Ursus ehf., væri til rannsóknar hjá gjaldeyriseftirliti bankans vegna aflandskrónuviðskipta. Í lok nóvember sleit hópurinn viðræðum.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur hafið formlega rannsókn á því hvort 11,6 milljarða króna framlag ríkisins til Sjóvár sé í andstöðu við ákvæði EES-samningsins um ríkisaðstoð. Frumniðurstaða stofnunarinnar var að svo sé.