Aukin umsvif eru í hagkerfinu um þessar mundir, nær sama hvert litið er. Utanríkisverslun er þar engin undantekning en á fyrri helmingi ársins hefur innflutningur aukist um 23% milli ára á föstu gengi og útflutningur aukist um 25%. Vöruskiptahallinn fyrstu 6 mánuði ársins var 5,9 milljarðar króna á föstu gengi, samanborið við 10,6 ma. kr. halla á sama tíma í fyrra, en krónan hefur styrkst um 2% á milli ára m.v. gengisvísitölu. Þetta kemur fram í greiningu Arion banka .

Sjávarafurðir og ál standa að langmestu leyti undir vöruútflutningi og hefur útflutningsverðmæti hvors um sig aukist umtalsvert á milli ára. Verðmæti sjávarafurða hefur aukist um 26%, sem er að mestu leyti að þakka hærra verði sjávarafurða. Þó hefur útflutningur þeirra í tonnum talilð einnig aukist um tæplega 19.000 tonn (+6%). Betri loðnuvertíð og hærri verð fyrir mjöl og lýsi hafa haft sérstaklega mikið að segja, en útflutningsverðmæti mjöls og lýsis hefur aukist um 12 ma. kr. milli ára.

Útflutningsverðmæti áls hefur aukist enn meira en verðmæti sjávarafurða, eða um 46%, sem jafngildir rúmlega 40 milljörðum króna. Samt hefur heimsmarkaðsverð áls á fyrri helmingi ársins verið að meðaltali svipað og á sama tíma í fyrra og útflutt magn áls aðeins aukist um 6% milli ára. Líklegt er að styrking bandaríkjadollars hafi aukið útflutningsverðmæti áls í krónum talið, en krónan hefur á árinu verið að jafnaði 18% veikari gagnvart dollarnum heldur en í fyrra. Það dugir þó ekki til að útskýra 38% hækkun á útflutningsverði.

Innflutningur tekur vel við sér

Aukin eftirspurn í hagkerfinu birtist glögglega í innflutningstölum það sem af er árinu. Mest hefur aukningin verið vegna innflutnings á hrávörum og rekstrarvörum eða um 25 ma. kr. Af þeirri aukningu eru um 13 milljarðar tilkomnir vegna aukins innflutnings á súráli, sem ál er unnið úr. Aukning á innflutningi súráls hefur verið meiri en aukning útflutnings á áli í tonnum talið, eða 17% og t.d. var innflutningur á súráli í júní nærri því tvöfalt meiri en í júní í fyrra annars vegar og í maí síðastliðnum hins vegar. Þá hefur innflutningur á fjárfestingavörum einnig aukist. Uppgangur í íbúðafjárfestingu sést þegar rýnt er nánar í tölurnar, en t.a.m. var flutt inn tvöfalt meira af þakjárnum og 25% meira af rúðuglerum á fyrri helmingi ársins samanborið við fyrri helming ársins 2014.

Ljóst er að eftirspurn hefur aukist mikið eftir ýmsum varanlegum neysluvörum og ökutækjum, sem sjá má á grafinu hér að neðan. Mikil aukning hefur verið á innflutningi bíla, ásamt ýmiskonar raftækjum. Aukinn kaupmáttur, fjölgun ferðamanna, sterkara raungengi og lækkun vörugjalda á raftækjum hafa ugglaust haft mikið að segja.