Álagið á skuldatryggingar Kaupþings banka á eftirmarkaði hefur staðið í stað frá því síðastliðinn fimmtudag og er nú 48 punktar, þrátt fyrir neikvæða umfjöllun danska Ekstrablaðsins sem birtist í gær. Í Umfjöllun Ekstrablaðsins segir að Kaupþing banki stundi stórfellt skattasvindl og þvott á peningum í gegnum Lúxemborg. Ekstrablaðið segir að fleiri greinar um íslenskt fjármálaumhverfi komi til með að birtast í blaðinu á næstu dögum í sama dúr.

Á föstudaginn féll krónan um 2% innan dags sem má meðal annars rekja má til orðróms sem komst á kreik að neikvæð grein um peningaþvott íslenskra fjármálafyrirtækja myndi birtast í Ekstrablaðinu danska.

Sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings banka hefur komið fram í fjölmiðlum og vísað öllum fullyrðingum greinarinnar á bug.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins frá markaðsaðilum taka greiningardeildir og miðlarar í Evrópu lítið mark á umfjöllun Ekstra blaðsins. Miðlarar alþjóðlega fjárfestingabankans ABN AMRO sögðu meðal annars að umfjöllunin væri þunn og marklaus og að ef hinar greinarnar verði jafn lélegar muni þær engin áhrif hafa á markaðinn. "Ég efa að þessi umfjöllun muni hafa einhver áhrif á markaðinn, þetta er líklega einhver hefndaraðgerð vegna þess að Íslendingar byrjuðu fríblaðastríðið svokallaða í Danmörku," sagði miðlari ABN AMRO.

Álag á skuldatryggingar Glitnis og Landsbankans hefur einnig staðið í stað síðan á fimmtudag. Þá hefur krónan styrkst um 0,91% í viðskiptum dagsins og því ljóst að umfjöllun Ekstrablaðsins mun ekki leiða til veikingar krónunnar líkt og síðasta föstudag.