Plast er ekki óumdeild vara, eins og sást til dæmis um á dögunum af fréttum um urðun plastpoka. Jakob Sigurðsson, forstjóri Promens, segir hins vegar að plast leggi sitt af mörkum til þess að minnka aukningu koldíoxíðs í andrúmsloftinu vegna þess að að það leysi af hólmi þyngri pakkningar sem krefjast meiri orku í flutningum auk þess sem plasttækni af ýmsum toga leiði til þess að hvers kyns farartæki og vélar séu léttari en áður var

„Plast mengar ekki út frá sér, það ver bæði vöruna sem er innan í plastumbúðunum fyrir umhverfinu og ver umhverfið fyrir vörunni. Það er mjög endurnýjanlegt og á marga vegu. Sumar plastvörur er hreinlega hægt að nota aftur og aftur. Aðrar er hægt að mylja niður og steypa upp á nýtt. Þá er hægt að brenna plast til orkuframleiðslu og þegar það er gert varðveitist stærstur hluti orkunnar sem var í olíunni sem notuð var til að framleiða plastið. Plastið sjálft er því ekki fjandsamlegt umhverfinu, en það er hins vegar okkar að passa upp á það að við forum réttum höndum um það. Það er ekki plastiðnaði að kenna að miklu magni af því er sóað með því að henda því á haugana eða beint í náttúruna. Við viljum öll standa vörð um náttúruna og lágmarka það fótspor sem við skiljum eftir okkur. Merki þess sjást hvarvetna í vöruþróun og starfsemi okkar,“ segir Jakob

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .