Verðhækkanir vegna eftirspurnar eftir vörum eins og maís, sykri og hveiti á heimsmörkuðum sökum aukinnar framleiðslu lífrænu eldsneyti hafa sett mikinn verðbólguþrýsting á matvöru í heiminum og eru áhrif þessa farin að finnast víðsvegar um heim. Í byrjun árs brutust út óeirðir sumstaðar í Mexíkó sökum þess að helmings hækkun á heimsmarkaðsverði á korni hefur þrýst upp verði á algengustu uppistöðu í mat þarlendra, tortillu. Bjór hefur einnig hækkað í verði í Þýskalandi og nú síðast lýstu Samtök ítalskra pastaframleiðanda, samkvæmt frétt þýska blaðsins Der Spiegel, því yfir að fimmtungs verðhækkun á framleiðslu þeirra væri óumflýjanleg og þróunin kann að vera á þann veg að dagar þessa þjóðarréttar Ítala sem uppistaða fæðu ýmissa þjóðfélagshópa eins og fátækra stúdenta séu hugsanlega taldir.

Umhverfisvakning vegna hlýnunar loftslags sökum losunar gróðurhúslofttegunda hefur gert það að verkum að mikill uppgangur er í framleiðslu á lífrænu eldsneyti víða um heim. Slík framleiðsla er niðurgreidd af stjórnvöldum í ríkjum eins og Bandaríkjunum og þar af leiðandi eru framleiðendur þess í mjög sterkri stöðu gagnvart matvælaframleiðendum varðandi yfirboð á markaði. Enda hefur verð á þeim afurðum sem eru notaðar til framleiðslunnar hækkað feikilega mikið undanfarin ár og vaxandi hlutfall af korn-, hveiti- og sykuruppskeru heimsins fer til framleiðslu á lífrænu eldsneyti. Afleiðingarnar eru meðal annars þær eru að hið háa verð er í auknum mæli farið að endurspeglast í hækkandi verði á matvöru. Auk þessa hefur veðurfar verið með þeim hætti að uppskera hefur verið dræm í stórum kornframleiðslulöndum eins og Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Marokkó, og Sýrlandi.

Ljóst er að þetta ástand kemur vart til með að breytast á næstu misserum og verð á fyrrnefndum afurðum helst hátt.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.