Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar fyrstu sex mánuði ársins var 2.428 milljónir króna en tap var á sama tíma í fyrra að fjárhæð 624 milljónir króna.  Hagnaður á öðrum ársfjórðungi var 1.542 milljónir króna samanborið við 1.250 milljóna króna tap á síðasta ári að því er kemur fram í frétt félagsins.

Hagnaður af vátryggingastarfsemi á fyrstu sex mánuðum ársins var 337 milljónir króna fyrir skatta samanborið við 291 milljóna króna tap í fyrra.

Hagnaður af innlendri vátryggingastarfsemi var 55 milljónir króna fyrir skatta á tímabilinu.

Bókfærð iðgjöld ríflega tvöfölduðust og voru þau 13.126 milljónir króna samanborið við 5.226 milljónir króna á sama tíma í fyrra.

Bókfærð iðgjöld af vátryggingastarfsemi TM á Íslandi jukust um 22%. Fjárfestingatekjur félagsins námu 4.066 milljónum króna á tímabilinu en voru 1.389 milljónir króna árið áður. Hagnaður á hlut nam 2,24 krónum.

Heildareignir TM voru 75.245 milljónir króna þann 30. júní 2007 og hafa aukist um 8,5% frá áramótum þegar þær voru 69.379 milljónum króna. Eigið fé nam 22.763 milljónum króna í lok tímabilsins sambanborið við 21.972 milljónir króna um áramót. Eiginfjárhlutfall var 30,3% þann 30. júní.

Norska vátryggingarfélagið Nemi er hluti af samstæðu TM frá 1. september 2006 og hefur áhrif á samanburð rekstrar og efnahags TM á milli ára.

Óskar Magnússon, forstjóri TM, segir í tilkynningu að ánægjulegt að sjá jákvæða þróun í afkomu félagsins. Hagstætt umhverfi á verðbréfamarkaði hafi haft jákvæð áhrif á afkomuna en að einnig megi merkja jákvæðan viðsnúning í afkomu af vátryggingastarfsemi. Kaupin á Nemi á síðasta ári auka umsvif og bæta afkomu félagsins af vátryggingastarfsemi.

Afkoma af vátryggingastarfsemi á Íslandi hefur batnað. Flestar tryggingagreinar eru nú reknar með hagnaði. Frjálsar ökutækjatryggingar hafa verið reknar með tapi en verðskrá þeirra var hækkuð um 15% frá og með 1. júlí og á sú hækkun eftir að skila sér. Einnig hefur mikil vinna átt sér stað í forvarnarstarfi á þessu sviði. Slysa- og sjúkratryggingar eru sérstakt áhygguefni og hefur tap af þessari grein verið verulegt á fyrri hluta ársins. Tapið má fyrst og fremst rekja til verulega aukins tjónaþunga í sjómannatryggingum. Þegar hefur verið gripið til ýmissa forvarnaraðgerða í samstarfi við viðskiptavini. Afkoma sjúkra- og slysatrygginga mun áfram verða erfið á þessu ári og fyrir liggur að hún er langt frá því að vera viðunandi. Breyta þarf fyrirkomulagi þessarar tryggingagreinar og hækka iðgjöld í samræmi við aukin tjónaþunga.

Afkoma Nemi dótturfélags TM í Noregi var góð á tímabilinu. 17% vöxtur er á bókfærðum iðgjöldum og hagnaður af starfseminni hefur aukist. Nokkrir stórir samningar náðust við nýja viðskiptavini á tímabilinu.

Þróun á verðbréfamarkaði var hagstæð á tímabilinu og voru fjárfestingartekjur samstæðunnar 4.066 m.kr. Áfram var unnið að því að dreifa eignasafni félagsins og var aukið við fjárfestingar félagsins erlendis. Ánægjulegt er að sjá verulega aukningu í fjárfestingatekjum hjá Nemi en unnið hefur verið samkvæmt nýrri fjárfestingastefnu þar á þessu ári.