Nýjum umsóknum um atvinnuleysisbætur fjölgaði óvænt um 1.000 manns í Bandaríkjunum í síðustu viku en sérfræðingar sem Bloomberg hafði rætt við höfðu spáð því að nýjum umsóknum myndi fækka um 7 þúsund. Alls voru 427 þúsund nýjar umsóknir skráðir í vikunni samkvæmt tölum sem atvinnumálaráðuneytið bandaríska birti í dag og Bloomberg vitnar í. Fjöldi þeirra sem fá atvinnuleysisbætur dróst þó saman um 71 þúsund.

Hækkandi olíuverð, lækkandi fasteignaverð og erfiðari aðgengi að lánsfé hafa hægt á eftirspurn í bandaríska hagkerfinu og fyrir vikið hafa atvinnuveitendur sagt upp fólki að undanförnu. Í síðustu viku birtust tölur þess efnis að færri ný störf urðu til í maímánuði en í  í átta mánuði þar áður auk þess sem atvinnuleysi jókst í mánuðinum.