Sala á fasteignum í Bandaríkjunum dróst saman í síðasta mánuði og hafði ekki verið minni í fjögur ár. Salan dróst saman þriðja mánuðinn í röð og skiptust 5,99 milljónir fasteignir um hendur sem er aðeins meira en sérfræðingar höfðu spáð. Nemur þetta lækkun um 0,3% milli mánaða.

Samkvæmt tölum Sambands bandarískra fasteignasala féll einnig meðalverð á fasteignum í síðasta mánuði og var 223,700 þúsund Bandaríkjadalir og er það 2,1% minna en fyrir ári síðan.

Er þetta í tíunda skipti sem lækkun á meðalverði á sér stað en slíkt hefur ekki átt sér stað áður. Munur er á fasteignamarkaðnum eftir landsvæðum á meðan aukning var í Norðaustur- og Miðsvesturríkjum Bandaríkjanna dróst fasteignasala saman í Suður- og Vesturríkjunum.

Óseldum fasteignum fjölgaði um 5% í maí og nam fjöldi þeirra 4,43 milljónum. Þetta þýðir að það taki tæki 8,9 mánuði að selja þær allar miðað við veltuna á markaðnum nú. Sambærilegar tölur hafa ekki sést síðan árið 1992 en þá átti sér stað samdráttur á fasteignamarkaðnum.

Sérfræðingar segja að samdráttinn megi rekja til framboðs á fasteignum og hræringar sem hafa átt sér stað á markaði með fasteignalán til þeirra einstaklinga sem hafa verra lánshæfismat en að meðaltali. Auknar kröfur útlánara hefur gert það að verkum að þeim hefur fækkað sem standast lánshæfismat.

Auk þess hafa vextir á fasteignalán farið hækkandi. Sérfræðingar telja að meðalverð á fasteignamarkaði muni halda áfram og þróunin ekki breytast fyrr en að byggingaverktakar dragi úr nýbyggingum.