„Guðfinna þarf að skýra hvað henni dettur í hug. Ég held að fólk ætti að hugsa áður en það setur eitthvað á bloggið, hvort sem það er snemma dags eða seint á kvöldin,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, um ummæli Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttir, borgarfulltrúa Framsóknar, um Eygló Harðardóttur félagsmálaráðherra. Fréttastofa RÚV greinir frá þessu.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun sagði Guðfinna í stöðuuppfærslu á Facebook í nótt að hún skammaðist sín fyrir að vera í sama flokki og Eygló. Sagði Guðfinna að hún tæki ekki ráðgjöf, en hún segist hafa boðist til að aðstoða Eygló í hennar málum sem hafi ekki viljað það.

Gunnar Bragi segir ummæli borgarfulltrúans út í hött. „Og mér finnst undarlegt að Guðfinna skuli yfirleitt láta þetta út úr sér og það er hennar að skýra hvað vakir fyrir henni. Við höfum fullt af leiðum til að ræða svona hluti innan flokksins eins og aðrir flokkar. Ef fólk kýs að reka svona á almennum vettvangi þá verður það bara að standa fyrir því,“ segir hann.

Gunnar Bragi segir að Eygló hafi hundrað prósent stuðning innan Framsóknarflokksins.

Guðfinna hefur nú fjarlægt Facebook-færsluna.