Sigurður G. Guðjónsson hrl., og lögmaður Sigurjóns Þ. Árnasonar, segir það um margt undarlegt og sérkennilegt að embætti sérstaks saksóknara skuli ekki leggja jafn mikinn þunga í að yfirheyra bankaráð gamla Landsbankans eins og bankastjóra, yfirmenn einstakra sviða og starfsmenn. Lögin séu skýr á þá leið að stjórnir beri ábyrgð á rekstri og ársreikningum fyrirtækja.

„Mér finnst það áleitin spurning hvers vegna spjótin beinast nær ekkert að bankaráði Landsbankans í þessu máli sem nú er til rannsóknar. Með því er ég alls ekki að segja að einhver lög hafi verið brotin í starfsemi Landsbankans. En fyrst það er verið að rannsaka þessi mál og setja menn í gæsluvarðhald þá finnst mér að það þurfi að skoða hvar ábyrgðin liggur samkvæmt lögum. Það er alveg skýrt í lögum að stjórn fyrirtækis ber ábyrgð á ársreikningum þess og rekstri. Mér finnst svolítið einkennilegt að margir, ekki síst úr hópi stærstu hluthafa bankans fyrir fall hans, virðast kappkosta að koma öllu sem til rannsóknar er yfir á Sigurjón. Hann hefur nú ekki lagt áherslu á að hafa áhrif á fjölmiðlaumfjöllun um sig heldur frekar gert grein fyrir sínum málum gagnvart yfirvöldum þegar eftir því er óskað. Enda er það hin eðlilega leið," sagði Sigurður.

Í bankaráði Landsbankans sátu Þorgeir Baldursson, Svafa Gröndfeldt, Þór Kristjánsson, Kjartan Gunnarsson, varaformaður, og Björgólfur Guðmundsson, formaður.