Vænst er til þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti fyrirskipi í dag Robert Lighthizer ráðherra verslunarmála í ríkisstjórn sinni að gera ítarlega skoðun á ásökunum um brot Kínverja á viðskiptaskilmálum við Bandaríkin. Má þar nefna þjófnað og yfirfærslu á hugverkarétti og einkaleyfum.

Þetta hefur CNN eftir háttsettum embættismönnum en Trump lét Xi Jinping forseta Kína vita af málinu fyrir helgi en ekki er um eiginlega rannsókn enn sem komið er að ræða, en þetta gæti orðið grundvöllur að því að slíkt skref yrði tekið.

Ef rannsókn myndi leiða í ljós brot Kínverja gæti Trump Bandaríkjaforseti sett tolla á kínverskan innflutning, en hann hefur verið gagnrýninn á mikinn viðskiptahalla Bandaríkjanna gagnvart Kína. Nemur hann meira en 300 milljörðum Bandaríkjadala, eða jafngildi 32.300 milljarðar íslenskra króna.

Heldur kínverskum stjórnvöldum ábyrgum á Norður Kóreu

Upphaflega hafði Trump ætlað sér að setja ferlið af stað fyrir viku, en hann frestaði því til að tryggja stuðning Kína við auknar refsiaðgerðir Sameinuðu þjóðanna gegn Norður Kóreu sem Viðskiptablaðið sagði frá fyrir helgi.

Hefur Trump mánuðum saman reynt að fá Kína til að setja meiri þrýsting á Norður Kóreu en verið óánægður með árangurinn af tilraununum. Kína stendur fyrir um 90% af erlendum viðskiptum kommúníska nágrannaríkisins og er ekki talið vilja veikja það um of heldur halda því sem stuðpúða gagnvart veru Bandarískra hermanna í Suður Kóreu.

Er talið að þrýstingurinn á Kína sé öðrum þræði ætlaður til að tryggja að landið framfylgi og auki viðskiptaþvinganirnar á norður kóreska einræðisríkið svo það gefi upp kjarnorkuvopnaáætlanir sínar.