Um 16 mánuðir hafa farið í að vinna verkefnið Big TV, jafnt viðskiptaáætlun sem og hugmynda og aðferðarfræði. Forsvarsmenn verkefnisins byrjuðu að kynna hugmyndina fyrir kapalfyrirtækjum í Skandinavíu fyrir 12 mánuðum og hafa stíf fundarhöld og kynningar fylgt í kjölfarið sem nú eru að skila sér í þeim samningum sem nú hefur verið greint frá.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að harður slagur er um þær rásir sem í boði eru á kapalmarkaðnum í Skandinavíu. Til að mynda hefði ekki verið hægt að fara af stað með viðskiptahugmynd eins og Big TV, og ná dreifingarsamningum við kapalfyrirtæki, nema að þau sjálf hafi trú á að markaður sé fyrir það efni og aðferðarfræði sem Big TV byggir á og að það sé arðvænlegt fyrir þau að selja sínum áskrifendum aðgang að stöðinni í framtíðinni.

Eins og áður hefur komið ffram hafa þeir Sigurjón Sighvatsson og Björn Steinbekk Kristjánsson, ásamt íslenskum fjárfestum, tryggt dreifingu á nýrri sjónvarpsstöð, Big TV, í Skandinavíu. Stöðin mun sérhæfa sig í framleiðslu sjónvarpsefnis fyrir aldurshópinn 12 til 25 ára. Útsendingar hefjast í Finnlandi en áformað er að ná til 8 milljón heimila í Skandinavíu fyrir árslok 2006. Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður 750 milljónir króna á fimm árum. Framkvæmdastjóri Big TV verður fyrrum yfirmaður markaðs- og sölumála EMI í Skandinavíu.

Sú tölvutækni sem til er í dag gerir það að verkum að rekstur og umfang sjónvarpsstöðva er ekki meira en svo að u.þ.b. 50 manns munu starfa fyrir Big TV í þeim fjórum löndum sem áður hafa verið nefnd segir í tilkynningu félagsins. Stöðvarnar verða fullkomlega sjálfvirkar í alla staði og allt efni, svo sem þættir, kynningar og auglýsingar, ásamt tónlistarmyndböndum, verður hýst á tölvustýrðum útsendingaþjónum. Í raun er hægt að hýsa allt efnið og senda út stöðina frá Íslandi og ekki óliklegt að hluti starfseminar fari fram hér á landi.

Ástæða þess að ráðist var í þetta verkefni, af Birni Steinbekk og Sigurjóni Sighvatssyni, er sameiginlegur áhugi þeirra á afþreyingariðnaði hverskonar og augljós tækifæri á meginlandi Evrópu fyrir stöð sem þessa. Reynsla Sigurjóns sem eins stærsta myndbanda- og auglýsingaframleiðanda Bandaríkjanna á níunda áratugnum, og síðan aðkoma hans að framleiðslu á kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, var kveikjan að verkefninu, ásamt því að Björn hóf að kanna möguleika á sjónvarpsrekstri í Skandinavíu sem sérhæfði sig markhópnum 12 til 24 ára.