Undirritaður var í dag rammasamningur um samstarf um viðskipti og fjárfestingar á milli Íslands og Bandaríkjanna.

Stjórnandi Viðskiptaskrifstofu Bandaríkjanna fyrir Evrópu og Mið-Austurlönd, Christopher S. Wilson, og starfandi utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, undirrituðu samninginn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Þar kemur fram að helsta markmið samningsins er að styrkja samstarf á milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda á sviði viðskipta og fjárfestinga. Mælir samningurinn fyrir um stofnun formlegs samráðsvettvangs íslenskra og bandarískra stjórnvalda um viðskipti og fjárfestingar.

Fulltrúar utanríkisráðuneytisins og Viðskiptaskrifstofu Bandaríkjanna fara sameiginlega með formennsku á þessum vettvangi, en að öðru leyti er hann skipaður fulltrúum frá viðeigandi stofnunum eða einkaaðila, eftir atvikum.

„Ráðherrarnir vonast til að samráð á grundvelli samningsins styrki og auki viðskipti landanna,“ segir í tilkynningunni.

„Þá lýsti starfandi utanríkisráðherra áhuga íslenskra stjórnvalda á að tryggja Íslendingum aðgang að sérstökum vegabréfsáritunum til Bandaríkjanna sem ætluð eru starfsmönnum erlendra fyrirtækja og fjárfestum.“

Viðskipti landanna árið 2007 námu sem svarar til 100 milljörðum ísl. kr., þar af nam innflutningur frá Bandaríkjunum 75 milljörðum ísl. kr.