Efnahagsástandið í Lettlandi er grafalvarlegt og hefur landinu verið líkt við veikasta hlekkinn í brothættri keðju hagkerfa aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB).

Álagið á hagkerfið var slíkt að stjórnvöld neyddust til þess að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF), ESB og Norðurlandanna eftir neyðarláni að andvirði tæpra tíu milljarða Bandaríkjadala. Meðal skilyrða lánsins var að fjárlagahalli stjórnvalda í Ríga mætti ekki fara yfir 5% af landsframleiðslu á þessu ári.

Vegna þessa neyðast stjórnvöld nú til þess að beita niðurskurðahnífnum á ríkisútgjöld á sama tíma og þau fást við meiriháttar efnahagssamdrátt, miklar erlendar skuldir,verðbólgu, viðvarandi viðskiptahalla og flótta erlends fjármagns frá landinu.

Sökum þess að Lettar eru þátttakendur í ERM 2 gjaldmiðlasamstarfinu – sem er skilyrt aðlögunarferli upptöku evru – geta þeir ekki spornað við þverrandi samkeppnishæfni hagkerfisins með því að leyfa gengi gjaldmiðils landsins að falla.

Þvert á móti þurfa stjórnvöld að beita takmörkuðum gjaldeyrisforða til þess að verja frekar ósveigjanlegt fastgengi gagnvart evru, en fjármagnsflótti hefur sett mikinn þrýsting á gengið undanfarin misseri. Aðlögun hagkerfisins að hríðversnandi efnahagsástandi þarf því að mestu fara fram í gegnum lækkun raunlauna, minnkandi eftirspurn og þar af leiðandi stóraukið atvinnuleysi.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í erlendri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .