Fiðrildavika UNIFEM á Íslandi hófst í gær en meginmarkmið hennar er að safna fé í Styrktarsjóð UNIFEM til afnáms ofbeldis gegn konum. Þeir fjármunir sem safnast renna til verkefna í Súdan, Lýðveldinu Kongó og Líberíu, að sögn Hrundar Gunnsteinsdóttur, talskonu Fiðrildavikunnar. Vikunni lýkur laugardaginn 8. mars, á alþjóðlegum degi kvenna, með fjáröflunarkvöldverði í Reykjavík.

Hrund segir að konur í Súdan, Kongó og Líberíu hafi þurft að þola gríðarlegt kynferðislegt ofbeldi í tengslum við stríðsátök í heimalöndum sínum. Nauðgun hafi kerfisbundið verið notuð sem vopn í höndum stríðandi fylkinga. „Ofbeldi gegn konum er algengasti glæpurinn í Líberíu og Kongó,” segir hún og bætir því við að þótt átökum sé lokið upplifi konurnar enn þá stríð í líkömum sínum. „Við viljum veita þessum konum byr undir báða vængi.”

Auk fjársöfnunarinnar er markmið Fiðrildavikunnar að vekja almenning til vitundar um þau víðtæku og skaðlegu áhrif sem kynbundið ofbeldi á stríðstímum hefur á líf kvenna víðsvegar um heim, en þó sérstaklega í Afríku. Í því skyni meðal annars verða fjórar örmyndir eftir Hrund og Kristínu Ólafsdóttur sýndar í Kastljósi í vikunni. Þar verður jafnframt vakin athygli á því að hægt sé að styrkja málefnið í símum 904-1000, 904-3000 eða 904-5000.

Vikunni lýkur á fjáröflunarkvöldverði

Landsbankinn og Eimskip eru bakhjarlar Fiðrildasöfnunarinnar. Auk þess hafa nokkur fyrirtæki eins og til dæmis Yggdrasill, Lyf og heilsa, World Class og fleiri ákveðið að láta hluta af sölu sinni á tilteknum vörum renna til söfnunarinnar. Þá verða hekluð brjóst boðin upp í Saltfélaginu vikunni en brjóstin voru gerð af íslenskum handverkskonum um land allt.

Á lokadegi Fiðrildavikunnar fer fram blaðamannafundur með þeim Olubanke King-Akerele, utanríkisráðherra Líberíu og Joanne Sandler, starfandi aðalframkvæmdarstýru UNIFEM í New York. Þær verða á Íslandi í boði utanríkisráðuneytisins og UNIFEM í New York.

Sama kvöld verður fjáröflunarkvöldverður í Reykjavík. „Þar er ætlunin að fagna kvenstyrk og kærleika í samræmi við málefnið,” segir Hrund. Miðinn kostar 70 þúsund krónur og rennur upphæðin óskipt til Styrktarsjóðs UNIFEM að sögn Hrundar.

Í kvöldverðinum verða skemmtiatriði og ræðuhöld og örmyndirnar endursýndar. Þar mun einnig fara fram svonefnt hljóðlátt uppboð á ýmsum listmunum til styrktar málefninu. Gestum er ætlað að vera í hvítum klæðnaði.