Breskur kaupsýslumaður vinnur nú að stofnun nýs banka sem er ætlað heitið Metro Bank. Sunday Telegraph greinir frá því í dag að blaðið hafi undir höndum nákvæma viðskiptaáætlun sem ætluð er fjárfestum, en framtakið vekur athygli í ljósi þeirrar lausafjárkrísu sem nú skekur alþjóðlega fjármálamarkaði.

Anthony Thompson gegnir formennsku á markaðsdeild Financial Services Forum, sem eru samtök stórra fjárfesta í Bandaríkjunum og Bretlandi. Thompson hyggst safna saman 100 milljónum punda til og opna fjögur útibú í Lundúnum. Áætlað er að 200 útibú verði síðan opnuð innan áratugs. Um væri að ræða fyrsta, nýja útibúabankann í Bretlandi í nærri öld.

Fjársöfnunin fer fram í gegnum verðbréfafyrirtækið Keefe, Bruyette & Woods, sem er bandarískt að uppruna en hefur einnig starfsemi í Lundúnum.

Metro Bank er ætlað að bjóða bæði netinnlánareikninga og almenna bankastarfsemi. Ætlunin er að ná til þess stórra hóps viðskiptamanna breskra banka sem segjast óánægðir með þjónustu núverandi viðskiptabanka sins. Samkvæmt nýlegum könnunum í Bretlandi telur sá hópur allt að þrjár milljónir manna.

Það sem heyrir helst til nýjunga sem Metro Bank hyggst bjóða er opnunartími alla sjö daga vikunnar. Samkvæmt viðskiptaáætlun Metro Bank ætlar bankinn sér að ná ríflega 16 milljóna punda hagnaði á fimmta ári rekstursins og 3,3% vaxtamun.