Hertz Global Holdings greiddi út meira en 16 milljónir dollara eða um 2,2 milljarða íslenskra króna í sérstaka bónusa til að halda í æðstu stjórnendur fyrirtækisins, (e. retention bonus) örfáum dögum áður en fyrirtækið sótti um greiðslustöðvun .

Bílaleigufyrirtækið greiddi Paul Stone, sem ráðinn var forstjóri fyrr í mánuðinum, 700 þúsund dollara, fjármálastjórinn Jamere Jackson fékk 600 þúsund dollara og markaðsstjóranum Jodi Allen fékk um 190 þúsund dollara, að því er WSJ segir frá.

Alls greiddi Hertz um 16,2 milljónir dollara til rúmlega 340 starfsmanna vegna þeirrar óvissu sem fyrirtækið og starfsfólk stendur frammi fyrir vegna áhrifa heimsfaraldursins á ferðamennskubransann.

Með því að greiða út bónusa áður en sótt er um greiðslustöðvun þá þurfa fyrirtæki ekki samþykki skiparétts þrotabúa. Málsvarar slíkra launauppbóta telja þær vera nauðsynlegar til koma í veg fyrir að hæfustu stjórnendurnir stígi til hliðar þegar þeirra er mest þarfnast. Aðrir segja bónusana einungis vera enn aðra leið fyrir æðstu stjórnendur til að auðgast.

Rökin fyrir bónusgreiðslunum eru sterkari núna en fyrir faraldurinn þar sem afkomuspár eru óljósar og erfitt er að búa til hvatamarkmið samkvæmt Brian Cumberland, þóknanasérfræðings hjá Alvarez & Marsal. Yfirmenn verslunarkeðjunnar J.C. Penny fengu einnig um 10 milljónir dollara samtals í uppbót rétt áður en fyrirtækið sótti um greiðslustöðvun.

Sömu sögu má segja um olíufyrirtækið Whiting Petroleum en fimm æðstu stjórnarmenn þess fengu um 14,5 milljónir dollara. Orkufyrirtækið Chesapeake Energy, sem hefur verið á jaðri gjaldþrots, hefur tilkynnt 25 milljóna dollara þóknanir til stjórnenda þess.