Tap Exista fyrir fjármagnsgjöld nam rétt rúmlega 1,2 milljarði evra á árinu 2008, samanborið við hagnað upp á tæpar 792 milljónir evra árið 2007.

Tapið eftir skatta og fjármagnsgjöld nam rúmlega 1,6 milljarði evra árið 2008, samanborið við hagnað upp á tæpar 574 milljónir evra árið 2007.

Þetta kemur fram í afkomuskýrslu Exista hf. fyrir árið 2008. Þar segir að þessi afkoma sýni það mikla tjón sem félagið hafi orðið fyrir þegar eignarhluti þess í Kaupþingi banka varð verðlaus við fall bankans í október 2008.

Bókfært eigið fé samstæðunnar var 200 milljónir evra í lok árs 2008 og lækkar um tæp 92% frá áramótum. Fram kemur að mat eigna og þar með eigin fjár er óvissu háð.

Vaxtagjöld námu 520,8 milljónum evra á árinu 2008, en voru 350,3 milljónir evra árið áður. Gengismunur og verðbætur skiluðu 92,9 milljóna evra hagnaði á árinu, samanborið við 84,3 milljónir evra árið áður. Tekjuskattur var jákvæður um 10,7 milljónir evra á árinu 2008.

Fram kemur að heildartekjur samstæðunnar á árinu voru neikvæðar um 66,2 milljónir evra en voru 961,5 milljónir evra árið 2007. Tap á fjáreignum á gangvirði nam 581,7 milljónum evra á árinu 2008, en hagnaður af veltufjáreignum nam 62,1 milljón evra.

Arðstekjur námu alls 11,2 milljónum evra á árinu samanborið við 12,6 milljónir evra á árinu 2007. Þó er tekið fram að arður frá hlutdeildarfélögum í fjármálaþjónustu, Kaupþingi banka og Sampo Group, er ekki tekjufærður í þessum lið, heldur færður til lækkunar á bókfærðu virði í efnahagsreikningi og tekinn inn í fjárstreymi félagsins. Arður hlutdeildarfélaga til Exista nam hins vegar 167,5 milljónum evra á árinu 2008.

Vaxtatekjur námu 136,5 milljónum evra á árinu en námu 91,2 milljón evra árið 2007. Í afkomuskýrslunni kemur fram að tæplega 45% vaxtatekna eru tilkomnar vegna eignaleigustarfsemi.

Tryggingaiðgjöld námu 97,1 milljón evra á árinu 2008, samanborið við 129 milljónir evra árið áður. „Samdrátturinn skýrist af gengislækkun krónunnar, en iðgjöld eru nær einvörðungu í krónum,“ segir í afkomuskýrslunni. Í krónum talið jukust eigin iðgjöld um 17% milli ára.

Hlutdeildartekjur námu 180,3 milljónum evra á árinu 2008 samanborið við 756,2 milljónir evra árið áður. Hlutdeild Exista í hagnaði eða tapi Kaupþings banka og Sampo Group féll undir þennan lið. Í skýrslunni segir að breytingin á milli ára skýrist af lakari afkomu hlutdeildarfélaga auk þess sem þau fóru út úr samstæðu Exista í byrjun fjórða ársfjórðungs.

Aðrar tekjur námu 28,3 milljónum evra í lok árs 2008, samanborið við 17,9 milljónir evra árið áður.

Niðurfærsla eignarhlutarins í Kaupþingi eykur gjöldin gífurlega

Heildargjöld samstæðunnar námu samtals 1.135,2 milljónum evra á árinu 2008 samanborið við 169,9 milljónir evra árið áður. Fram kemur að niðurfærsla eignarhlutarins í Kaupþingi banka er stærsti einstaki kostnaðarliðurinn ásamt tapi vegna sölu á eignarhluta í Sampo Group sem samtals námu 916,4 milljónum evra. Þá nam virðisrýrnun viðskiptavildar nam samtals 75,6 milljónum evra.

Rekstrarkostnaður samstæðunnar nam 57,7 milljónum evra á árinu og lækkaði um tæpar 8 milljónir evra á milli ára.

Heildareignir lækkuðu um 71,3% á árinu 2008

Í efnahagsreikningi félagsins kemur fram að heildareignir Exista voru 2.300 milljónir evra þann 31. desember 2008 og höfðu lækkað um 5.710 milljónir evra eða 71,3% frá upphafi árs 2008. Fjáreignir á gangvirði námu 316 milljónum evra í árslok 2008 og höfðu lækkað um 808 milljónir evra frá upphafi ársins.

„Lækkunina má rekja til hruns fjármálamarkaða og lækkandi verðmætis á markaðseignum félagsins,“ segir í afkomuskýrslunni.

Veltufjáreignir námu 98 milljónum evra í lok árs 2008 og höfðu dregist saman um 113 milljónir evra frá áramótum.

Útlán og kröfur námu 1.480 milljónum evra í lok árs 2008. Gjaldmiðlasamningar Exista við Kaupþing banka hf. og Glitni hf. falla undir þennan lið.

Viðskiptavild samstæðunnar lækkar um 59% á árinu. Í lok ársins var hún metin á 195 milljónir evra í samræmi við niðurstöður virðisrýrnunarprófs.

Handbært fé nam 187,7 milljónum evra í lok árs 2008. Eign Exista á innstæðureikningi hjá Nýja Kaupþingi banka hf. nam tæpum 13 milljörðum króna.

Eins og fram hefur komið hefur Skilanefnd Kaupþings banka hafið mál á hendur Exista og krefst viðurkenningar á rétti til innstæðu þessarar. Exista mun taka til varna í málinu enda telur félagið skilanefnd Kaupþings banka ekki eiga rétt til innstæðu félagsins hjá Nýja Kaupþingi. Aðrar eignir námu 24 milljónum evra.

Heildarskuldir lækkuðu um 63% á árinu

Heildarskuldir námu 2.100 milljónum evra í lok árs 2008 og höfðu lækkað um 3.542 milljónir evra, eða tæp 63%, frá upphafi árs. Skuldir Exista greinast meðal annars í lántökur, víkjandi skuldabréf og vátryggingaskuld. Lántökur námu 1.678 milljónum evra í lok árs og lækka um 3.445 milljónir evra, rúm 67%, frá upphafi árs.

Víkjandi skuldabréf námu 272 milljónum evra í lok ársins, en víkjandi skuldabréf eru þær kröfur sem ganga aftar öllum öðrum kröfum. Vátryggingaskuld nam 125 milljónum evra og hafði lækkað um 96 milljónir evra frá upphafi árs vegna lækkunar gengis íslensku krónunnar.