Hlutabréf netfyrirtækisins Google, sem starfrækir vinsælustu leitarvélina á Netinu, hækkuðu um allt að 14% í dag, en uppgjör fjórða ársfjórðungs, sem var yfir væntingum, birtist eftir lokun markaða í gær. Í Hálffimm fréttum KB banka er bent á að verð hlutabréfa fyrirtækisins hefur tvöfaldast síðan að frumútboð þess fór fram í ágúst á seinasta ári. Hlutabréf netfyritækisins Yahoo, sem starfrækir næst vinsælustu leitarvélina, hafa hækkað um 24% á sama tíma. Samkvæmt gögnum sem fréttastofan Bloomberg tók saman í morgun ráðleggja 13 sérfræðingar kaup á hlutabréfum Google, 12 að halda þeim og einn að selja þau.

Í Hálffimm fréttum er rakið að frá sama tímabili fyrir ári jukust hreinar tekjur fyrirtækisins úr 27,3 milljónum dollara í 204,1 milljón dollara, eða úr 10 sentum á hlut í 71 sent á hlut. "Tekjuaukninguna má fyrst og fremt þakka hærra verði fyrir auglýsingar tengdum leitarniðurstöðum og hærri framlegð fyrirtækisins af auglýsingum sem úthlutað er til annarra netsíða. Eftirspurn eftir auglýsingum á netinu hefur verið í miklum vexti og er almennt spáð mikilli eftirspurnaraukningu á árinu," segir í Hálffimm fréttum.

Þar er bent á að miðað við verð hlutabréfa Google við lokun markaða í gær er V/H hlutfall þeirra 55,7 miðað við spá markaðsaðila fyrir árið. Samkvæmt ComScore Networks, sem fylgist með netnotkun, jók Google hlutdeild sína leitarvélanotkun í heiminum um 3 prósentustig í nóvember, eða í 47%. Hlutdeild Yahoo jókst um 1 prósentustig, eða í 27%. Þess má geta að markaðsverðmæti Google er í dag um 58,5 milljarðar dollara eða rétt tæplega þrefalt verðmæti General Motors og rúmlega þrefalt verðmæti Amazon.com en verðmæti þessara þriggja fyrirtækja er álíka og alls íslenska hlutabréfamarkaðarins. Til samanburðar er verðmæti fjármálafyrirtækisins Merill Lynch 56 milljarðar dollara eða litlu minna en Google.