*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Erlent 26. júlí 2018 11:20

Uppgjörið kom fjárfestum í opna skjöldu

Uppgjör Facebook stóðst ekki væntingar í fyrsta sinn frá 2015, og fjármálastjórinn sagðist búast við minni vexti en gert var ráð fyrir.

Ritstjórn
Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri Íslandsbanka.
Haraldur Guðjónsson

Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri Íslandsbanka, segir helstu ástæðuna fyrir lækkun Facebook í gær vera hvað uppgjörið er langt frá væntingum greinenda.

Eins og sagt var frá í morgun hrundu hlutabréf í Facebook um 24% þegar mest lét í eftirmarkaðsviðskiptum í gær, sem jafngildir um 140 milljarð dollara lækkun á markaðsvirði, eða um 15 þúsund milljörðum króna. Það er um sexföld landsframleiðsla Íslands.

Upphaflega ástæðan var lægri tekjur og minni notendafjölgun á síðasta ársfjórðungi en spáð hafði verið, í fyrsta sinn síðan 2015, sem olli upp undir 10% lækkun. Seinni skellurinn kom hinsvegar þegar David Wehner, fjármálastjóri Facebook, upplýsti greinendur um væntingar sínar um áframhaldandi hægari vöxt en gert hafði verið ráð fyrir, í fyrirsjáanlegri framtíð. Eftir það samtal voru bréfin komin niður í 172 dollara á hlut, um 22% lækkun frá lokun markaða.

Wehner sagði nokkrar ástæður fyrir hófsamari spám, þeirra á meðal gjaldmiðlamál, nýjar tegundir auglýsinga, og persónuvernd.

Þá hefur innleiðing GDPR-löggjafarinnar í Evrópu haft neikvæð áhrif á notendavöxt og notkun. Daglega virkum notendum fækkaði um 3 milljónir í Evrópu á ársfjórðungnum, sem er um 1% lækkun. Talsmenn Facebook sögðu þó löggjöfina ekki hafa haft teljandi áhrif á auglýsingar í Evrópu.

Björn segir hinsvegar stóru spurninguna vera hver sé undirliggjandi ástæðan: „Er ástæðan sú að það var bara ekkert raunhæft að reikna með svona miklum áframhaldandi vexti þegar Facebook er orðið svona stórt, eða er þetta vegna einhverra ákveðinna atburða? Vestanhafs er það pólitíkin og í Evrópu erum við náttúrulega með þessa GDPR reglugerð og þessi persónuverndarlög, og svo er spurningin hvort almenn umræða um persónuvernd sé í fyrsta skipti að ná til almennings, og almenningur sé kannski í fyrsta skipti farinn almennilega að átta sig á því að það er ekki alveg ókeypis að nota Facebook, þú ert að borga fyrir það með notkun á þínum persónuupplýsingum.“

Þá segir hann það óvenjulegt hjá svona stóru fyrirtæki að væntingar séu svona langt frá raunveruleikanum.

Hann segir hinsvegar enn töluverða óvissu með hvar hlutabréfin muni enda, en það fari að skýrast þegar markaðir ytra opni, og við lokun markaða þar í dag verði komið betur í ljós hver viðbrögð markaðarins verða: „Það verður töluvert mikið meira að marka lokun dagsins heldur en opnunina.“

Stikkorð: Facebook Björn Berg