Í kjölfar þess að bandaríska álfyrirtækið Alcoa gerði 28.5 milljarða Bandaríkjadala óvinveitt yfirtökutilboð í kanadíska fyrirtækið Alcan virðast flestir sammála um að samþjöppun muni eiga sér stað meðal helstu álfyrirtækja heims. Þrátt fyrir að stjórn Alcan hafi hafnað tilboðinu er gengið að því vísu að þar með sé ekki komið að sögulokum: Fleiri fyrirtæki munu blanda sér í slaginn en hinsvegar telja sérfræðingar mestu samlegðaráhrifin felast í því að Alcan og Alcoa fari í eina sæng.

Í upphafi vikunnar greindi ástralska blaðið Sydney Morning Herald frá því að ensk-ástralska námu- og álvinnslufyrirtækið Rio Tinto hefði keypt sérfræðiaðstoð frá Detusche Bank til þess að fá ráðleggingar við hugsanlegt tilboð til yfirtöku á Alcan. Á svipuðum tíma hafði kanadíska dagblaðið Globe and Mail eftir fólki innan úr fjárfestingarbankageiranum að forráðamenn Norsk Hydro horfi einnig í sömu átt og séu að vinna að yfirtökutilboði sem nemur meira en 30 milljörðum Bandaríkjadala. Blaðið hermir að tilboðið yrði meðal annars fjármagnað með því að sækja fé í Olíusjóð Norðmanna, en norska ríkið á ríflega fjörtíu prósent í Norsk Hydro. Viðbrögð forráðamanna beggja fyrirtækja við þessum fréttum eru á sama veg: Vísað er til þeirrar stefnu að þau svari ekki orðrómi.

Auk ofangreindra fyrirtækja er fullyrt í fjölmiðlum að fyrirtæki eins og BHP Billiton, Vale di Rio Doce, United Company Rusal, Anglo American og Xtrata sýni Alcan einnig áhuga. Einnig er talið að stórir einkafjárfestingasjóðir sjái tækifæri í álgeiranum, en slíkir sjóðir hafa drifið áfram yfirtökuhrinur á ýmsum sviðum undanfarin misseri.

Aðkoma Norsk Hydro sögð óraunhæf
Í frétt Dow Jones-fréttastofunnar um áhuga annarra álfyrirtækja á Alcan kemur fram að sérfræðingar telja litlar líkur á að úr samruna fyrirtækja eins og Rio Tinto BHP Billington verði: Samlegðaráhrifin yrðu ekki jafn mikil og milli Alcan og Alcoa. Jafnfram hefur fréttastofan eftir norskum sérfræðingi á markaði að Norsk Hydro sé einfaldlega of lítið í samanburði við Alcan að það geti tekið fyrirtækið yfir. Auk þess er bent á að frétt Globe and Mail um að Olíusjóður Norðmanna gæti lagt fram fé sé óraunhæf með öllu. Tímasetningin sé ekki hentug til þess að láta að sér kveða sökum þess að fyrirtækið sé enn að ganga frá sölu á olíu- og gashluta rekstrarins til Statoil.

Verður innblástur sótt til Pac-Man?
Þrátt fyrir að sérfræðingar telji samruna Alcoa og Alcan vera hagstæðan er ekki víst að leiðin að sameiginlegri sæng verði greið. Sem kunnugt er hvatti stjórn Alcan hlutafjáreigendur ekki að ganga að yfirtökutilboðinu sökum þess að það væri ekki nógu hátt og með öllu óljóst væri hvort að viðeigandi yfirvöld myndu gefa grænt ljós á slíkan samruna. Stjórn Alcoa lýsti því þó yfir í síðustu viku að hún hafi fundað með fjölda hlutafjáreigenda í Alcan og sagði þá vera móttækilega fyrir slíkum samruna. Stjórn Alcan gæti hinsvegar komið með krók á móti bragði. Hún segist ekki útiloka hina svokölluðu Pac-Man strategíu, en hún sækir innblástur sinn til vinsæls tölvuleiks og felst í því að fyrirtæki sem er orðað við óvinveitta yfirtöku snýr við blaðinu og freistar þess að taka yfir sjálfan tilboðsgjafann. Stjórnin hefur ennfremur lýst því yfir að hún hafi átt í viðræðum við þriðja aðila um aðrar leiðir til þess að tryggja stöðu fyrirtækisins.

Af þessu má vera ljóst að brölt álfyrirtækja kann að vera uppspretta tíðinda á næstu árum og munu fyrirtæki sem hafa töluverð umsvif hér á landi vera í brennidepli.