Íslandsbanki brýtur gegn fjórum stafliðum neytendalaga með ófullnægjandi upplýsingagjöf í stöðluðu eyðublaði með neytendaláni hjá sér. Um brot er að ræða í tveimur stafliðum þegar kemur að upplýsingagjöf í lánssamningi til neytenda. Þetta felst í ákvörðun Neytendastofu.

Athugun Neytendastofu hófst í vor en sambærilegt erindi var sent á aðra banka og neytendalánveitendur. Enn sem komið er hefur niðurstaða í tilfellum er varða aðra lánveitendur ekki verið birt.

Neytendastofa taldi meðal annars að upplýsingar um vexti og mögulegar breytingar á þeim, varðandi lán í appi, hefði ekki verið fullnægjandi og að upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar þyrftu að taka mið af því láni sem sótt væri um en væri ekki aðeins sýnidæmi. Einnig þótti upplýsingagjöf um kostnað við notkun greiðsluleiða ekki fullnægjandi en þar var látið nægja að vísa á verðskrá á heimasíðu bankans. Hið sama gilti um kostnað vegna vanskila.

Stjórnvaldið hefur veitt bankanum fjögurra vikna frest til að koma málum í rétt horf. Verði ekki brugðist við því er viðbúið að sektir verði lagðar á bankann.