Umboðsmaður Alþingis hefur sent menntamálaráðuneyti tilmæli um að bæta upplýsingagjöf sína til þeirra sem hyggjast leggja stund á kennaranám um það hvaða réttindi þeir hafi að námi loknu.

Tilmælin eru komin til vegna kvartana 75 kennara sem töldu sig hafa réttmætar væntingar um að fá útgefið leyfisbréf frá menntamálaráðuneytinu til kennslu að loknu bakkalárnámi. Lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda var breytt árið 2008 og menntunarkröfur til útgáfu leyfisbréfs auknar.

Að minnsta kosti einn þeirra sem kvörtuðu til umboðsmanns fullyrti að starfsmenn menntamálaráðuneytis hefðu haldið því fram að þeir sem hæfu nám árið 2009, eftir að breytingin hafði tekið gildi, gætu vænst þess að fá útgefið leyfisbréf samkvæmt eldri menntunarkröfum, en það hafi ekki verið raunin þegar á hólminn var komið.

„Ég legg áherslu á að væntingar sem einstaklingur hefur til þess að öðlast starfsréttindi að námi loknu kunna oft að vera ákvörðunarástæða fyrir vali hans á námsbraut,“ segir umboðsmaður í álitinu.