Eimskip hefur boðað hagræðingaraðgerðir sem fela meðal annars í sér að stöðugildum hjá félaginu á alþjóðavísu fækkar um 73, þar af eru 47 á Íslandi. Beinar uppsagnir í heildina eru 54 talsins, þar af 39 á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar og segir í henni að fækkun stöðugilda nái til flestra starfshópa fyrirtækisins þar með talið til stjórnenda.

„Hagræðingaraðgerðir verða gerðar hjá Eimskip í dag. Á undanförnum fimmtán mánuðum hefur félagið verið á þeirri vegferð að einfalda og straumlínulaga rekstur félagsins með margvíslegum aðgerðum og tengist hluti þeirra aðgerða sem gripið er til í dag þeirri vegferð. Að auki hefur óvissan varðandi þróun mála í íslenska hagkerfinu og á erlendum mörkuðum félagsins vegna COVID-19 áhrif á umfang þessara aðgerða,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að sú breyting verði á framkvæmdastjórn félagsins að Edda Rut Björnsdóttir, sem verið hefur markaðs- og samskiptastjóri Eimskips í rúmt ár, muni taka við samþættu sviði Mannauðs-, markaðs- og samskiptamála. „Edda sem er menntaður viðskiptafræðingur hefur yfir 20 ára fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu, þar af starfaði hún í 12 ár hjá Íslandsbanka. Við þessa breytingu mun Elín Hjálmsdóttir, sem verið hefur framkvæmdastjóri Mannauðssviðs, láta af störfum og eru henni færðar bestu þakkir fyrir framlag sitt til félagsins.“

Þá sé gerð sú breyting að innflutningsdeild á Íslandi verður skipt upp með þeim hætti að sérstök áhersla verði annars vegar á stærri fyrirtæki og hins vegar á lítil og meðalstór fyrirtæki og einstaklinga. Með þessu sé skerpt á þjónustu í innflutningi við þessa mismunandi viðskiptavinahópa sem geri félagið betur í stakk búið til að veita þeim góða þjónustu og heildarlausnir.

Nauðsynlegar en erfiðar aðgerðir

„Sú vegferð hagræðingar og samþættingar sem félagið hefur verið á hefur ekki verið auðveld og þá sérstaklega er varðar fækkun starfsfólks. Hún hefur hins vegar verið nauðsynleg þegar litið er til afkomu félagsins síðustu misseri og þá veldur COVID-19 mikilli óvissu sem ekki er hægt að líta framhjá. Með þessum aðgerðum styrkjum við fjárhagslegar stoðir félagsins sem og reksturinn til framtíðar. Þá má ekki gleyma að félagið hefur fjárfest töluvert í sjálfvirknivæðingu og umbótum á ferlum og vinnulagi sem styður við þessar aðgerðir.  Við sjáum ekki fyrir okkur frekari aðgerðir af þessari stærðargráðu í nánustu framtíð.

Á sama tíma og við ráðumst í þessar sársaukafullu aðgerðir hef ég óskað eftir því við stjórn félagsins að lækka laun mín um 10% og þannig sýna í verki að þessar hagræðingaraðgerðir nái til allra laga í fyrirtækinu.

Þrátt fyrir fordæmalausar aðstæður er heildarflutningakeðjan hjá Eimskip að virka, skipin okkar eru að sigla, flutningabílarnir að keyra og viðkomuhafnir okkar eru opnar. Við erum mjög meðvituð um hlutverk Eimskips sem mikilvægs innviðafyrirtækis í flutningaþjónustu á vörum til og frá landinu og í dreifingu innanlands og við munum halda uppi okkar góða þjónustustigi áfram," segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, í tilkynningunni.