Velgengni galdrastráksins Harry Potters hefur ekki farið framhjá neinum þó að mörgum sannkristnum mönnum hafi gramist allt þetta galdrafár og kukl. En rithöfundinum J.K. Rowling  hefur ekki aðeins tekist að skapa eftirminnilega persónur og aldeilis ótrúlegt sögusvið heldur einnig hagkerfi sem margir eiga lifibrauð sitt undir.

Í nýjasta hefti tímaritsins Economist er vakin athygli á því að þetta hagkerfi kunni að vera að renna sitt skeið á enda.

Allir sem eitthvað fylgjast með vita að Harry Potter bækurnar voru sjö talsins og er sú síðasta komin út. Eftir er að filma lokamyndina og verður hún gerð í tveimur hlutum og verður myndatöku lokið næsta vor. Þá er hætt við að hátt í þúsund manns missi vinnuna.

,,Það sem ekki má nefna"

Harry Potter myndirnar hefa verið teknar upp í fyrrum Rolls-Royce verksmiðju norður af London. Þar hefur fjöldi manns starfað við að smíða leikmyndir og furðupersónur. Er nú svo komið að Leavesden Studios hafa verið starfrækt í um það bil einn áratug. Þetta er líklega; ,,það sem ekki má nefna í hagkerfinu", en staðreyndin er sú að mörgum hættir til að vanmeta mikilvægi afþreyingariðnaðarins. Bílaiðnaðurinn bandaríski hefur náð að hreyfa við stjórnmálamönnum með fullyrðingum um að ein af hverjum tíu Bandaríkjamönnum treysti á störf í iðnaðinum. Þá eru meðal annars leigubílstjórar taldir með!

Afþreyingaiðnaðurinn er af öðru tagi. Áhrifin eru ekki eins augljós en í tilfelli Harry Potters er engin spurning að ákveðið hagkerfi hefur orðið til. En deila menn um hversu ágætar bókmenntir sögurnar eru eins og bent er á í grein Economist. Engin deilir þó um að hugmyndaauðgið er gríðarlegt og sögusviðið gengur furðu vel upp innan síns sérstaka söguheims. Sömuleiðis hafa sögurnar það umfram aðrar frægar barna- og unglingasögur að ekki er verið að þröngva ákveðnum boðskap upp á lesendur eins og á t.d. við um sögur C.S. Lewis.

Öskubuskusaga

En uppgangur Harry Potters er auðvitað ævintýri líkastur. Þetta er hálfgerð Öskubuskusaga frá því einstæð móðir sat á kaffihúsum í Edinborg og skáldaði upp söguna um munaðarleysingjann Harry Potter og þar til hún var orðin auðugasta kona Bretlands.

Fyrst var það Bloomsbury útgáfufélagið sem blómstraði. Árið 1996 hafði barna- og unglingadeild félagsins aðeins 1,2 milljónir dala í sölu. Á sama tíma höfðu heimildarsögur skilað 4,7 milljónum punda. Þá fékk Nigel Newton í hendurnar handrit að Harry Potter og viskusteininum (“Harry Potter and the Philosopher’s Stone”) og eftir að hafa kannað viðbrögð dóttur sinar ákvað hann að gefa bókina út.

Það tók Bloomsbury talsverðan tíma að átta sig á því að á fjörur félagsins hefði rekið eitthvað sem myndi breyta rekstri þess um ókomna tíð. Í ársskýrslu Bloomsbury fyrir árið 1996 er rétt lítillega minnst á bókina en aðrar taldar mun söluvænlegri. Meira að segja árið 1999, þegar Harry Potter hafði selst í 763.000 eintökum, var Bloomsbury að hampa öðrum barnabókum umfram galdrastrákinn.

Bloomsbury  blómstrar

En með hverri nýrri bók drógust nýir lesendur að og Bloomsbury blómstraði. Velta félagsins margfaldaðist. 1995 nam hún 11 milljónum punda, 14 milljónum 1997 og svo hófst flugið. Árið 1999 var veltan komin í 21 milljón punda og tveimur árum seinna var hún orðin 61 milljónir punda. Um miðjan þennan áratug var veltan komin yfir 100 milljónir punda.

Bækurnar um Harry Potter seldust og seldust. Í Bandaríkjunum hefur útgáfufélagið Scholastic selt bækurnar en yfir 400 milljónir eintaka hafa selst. Kaupendahópurinn er einnig talsvert stærri en á við um hefðbundnar unglinga- og barnabækur. Með því að breyta kápunni tókst að fá fullorðna kaupendur til að kaupa líka, nokkuð sem menn áttu ekki að venjast með unglingabækur.

En þeir hjá Bloomsbury vita að það þarf að búa í haginn. Þanig hefur félagið keypt nokkur útgáfufélög til að undirbúa sig fyrir það að treysta á Muggaraheiminn aftur! Þeir eiga nú Arden útgáfuna sem sérhæfir sig í Shakespeare útgáfu. Einnig hafa þeir keypt Tottel útgáfuna sem sérhæfir sig í lögfræðibókum.

Kvikmyndirnar fara á flug

En næsta félag til að verða snert af töfrasprota Harry Potters var Heyday Films, lítið kvikmyndafyrirtæki í Bretlandi, sem var að leita sér að heppilegum bókum til kvikmyndunar þegar þeir duttu niður á Harry Potter. Ritari Heyman rakst á bókina sumarið 1997 og Heyman fór í kjölfar þess með hana til Warners Bros. Lionel Wigram tók við handritinu en var ekki of hrifinn og það var ekki fyrr en komið var fram á árið 1998 sem einhver hreyfing komst á málið. Warner keypti kvikmyndaréttinn en eyddi síðan nokkrum mánuðum í að fá Steven Spielberg til að leikstýra. Það var ekki fyrr en í febrúar árið 2000 sem hann gaf endanlegt afsvar og var þá farið að leita að nýjum leikstjóra. Þeim til afsökunar má benda á að bókin fór ekkert of vel af stað í Bandaríkjunum og í júlí 1999 birtist grein í New York Times undir fyrirsögninni “Harry who?”

Kvikmyndaiðnaðurinn var ekki allt of trúaður að skáldskap af þessu tagi og áðurnefndur Mr Wigram tald að fantasíur af þessu tagi væru ekki til vinsælda fallnar! Honum til afsökunar má benda á að kvikmyndun Hringadróttinssögu (“Lord of the Rings”) var ekki búin að birtast þá. Staðreyndin var sú að bandarísku kvikmyndaverin efuðust en um að breskar ævintýrasögur myndu falla bandarískum bíógestum í geð. Svo virtist sem kvikmyndun þessara tveggja verka væru of ,,bresk" fyrir bandarísku stúdíóin en of stór fyrir bresku kvikmyndaframleiðendurna.

Og vissulega er þessi tregða einkenileg í dag. Warner Bros hefur selt kvikmyndamiða út á Harry Potter fyrir $1.7 milljarða í Ameríku og $3.7 milljarða á heimsvísu. Sex myndir eru komnar og aðrar tvær á leiðinni. Fá eða engin verkefni hafa reynst arðsamari fyrir Warner.  Allar myndirnar hafa selst gríðarlega á DVD og spólum og áætlar júlíhefti Variety, bíblía skemmtanaiðnaðarins, að heildarsala DVD sé nú komin yfir $2,7 milljarða. Hægt er að bæta við nokkrum hundruðum milljóna dollara vegna sölu til sjónvarpsstöðva. Milli janúar og október á þessu ári voru Harry Potter myndirnar sýndar 65 sinnum í bandarísku sjónvarpi að því er segir í samantekt Nielsen rannsóknarfélagsins.

Stefnubreyting

Þegar fyrsta myndin um Harry Potter var sýnd árið 2001 var Warner einnig að helypa af stokkunum nýjustu Batman mynd sinni. Þar mætust tvær ólíkar stefnur því Harry Potter var leikstýrt af fremur lítt þekktum leikstjóra, börn og breskir sviðsleikarar í aðalhlutverki. Batman var á hin bóginn með Jack Nicholson og Michael Keaton (og seinna, George Clooney og Arnold Schwarzenegger). Er skemmst frá því að segja að Batman tapaði fyrir galdrastráknum og Hollywood fór að endurskoða stefnu sína varðandi stórmyndir. Um leið fóru bandarísku kvikmyndaverin að gefa utanaðkomandi leikstjórum eins og Alfonso Cuarón, Mike Newell og David Yates gaum. Má vera að það séu mestu áhrif Harry Potter.

Varfærnir í vörusölu

Í byrjun árs 2000 sagði J.K.Rowling að það versta sem fyrir hana gæti komið væri að Harry Potter endaði sem vörumerki fyrir skyndibita! Þrátt fyrir að talsverð varfærni hafi ríkt varðandi vörusölu þegar kemur að Harry Potter þá tókst Mattel leikfangavöruframleiðendanum að fá leyfi til að nýta sér sögupersónur til vörusölu. Fyrsta árið seldi félagið fyrir $160 millónir en svo drógst það saman. Þar hafa töfrarnir ekki dugað sem skyldi þó sjálfsagt myndu margir telja að Mattel hafi haft ágætt upp úr sölunni.

Byg gt á The Economist