Miðasala á tónleika með poppstjörnunni Justin Bieber hófst klukkan tíu í morgun og var orðið uppselt á tónleikana á hálftíma. Kemur þetta fram í tilkynningu frá skipuleggjendum tónleikanna.

Tónleikarnir fara fram þann 9. september næstkomandi í Kórnum og munu 19.000 gestir hlýða á tónlist Bieber.

Heildarvirði seldra miða á tónleikana er áætlað um 319 milljónir króna . Óvíst er hversu mikið Bieber tekur fyrir hverja tónleika. Sé leitað á vefnum að tölfræði finnst lítið sem ekkert staðfest eða sannað, og því er erfitt að gefa nákvæma tölu. Flestar heimildir virðast þó benda til þess að Bieber sé að taka á bilinu 1-2 milljónir bandaríkjadala fyrir hverja sýningu. Það jafngildir krónutölu á bilinu 130-260 milljónir.