Danska viðskiptablaðið Børsen skrifar í dag um samruna og sviptingar innan íslenska bankakerfisins.

Á mánudag í þessari viku var þriðji stóri bankasamruni þessa árs tilkynntur, en Glitnir ætla nú að taka yfir sparisjóðinn Byr. Sjeik frá Katar hefur jafnframt keypt 5% hlut í Kaupþingi, og er nú þriðji stærsti hluthafi bankans. Kaupþing hefur síðan tekið yfir tvo smærri banka í ár, en Børsen vísar þar til Spron og Sparisjóðs Mýrasýslu.

Sigrún Hjartardóttir, almannatengill hjá Glitni, segir í samtali við Børsen að því fari fjarri að Byr hafi átt í lausafjárvandræðum: „Engan veginn. Byr er einn af best stæðu bönkum landsins. Hvorugur bankanna [Glitnir eða Byr] eiga í fjárhagsvandræðum, og samruni þeirra hefur í för með sér mikla möguleika fyrir báða, sérstaklega í ljósi nýliðinna atburða á alþjóðlegum fjármálamörkuðum,“ segir hún.

Børsen segir frá því að íslenska bankakerfið telji um 15 banka, þar sem hinir fjórir stærstu – Landsbankinn, Kaupþing, Glitnir og Straumur telji langstærstan hluta þess, miðað við markaðsvirði.

Danska blaðið greinir frá tengslum íslensku bankanna við Rússaland og Miðausturlönd. Íslensku bankarnir séu í eigu hóps viðskiptamógúla. Þessir sömu mógúlar og hafa verið í verslunarleiðangri upp á tugi milljarða í Bretlandi, Danmörku og Mið-Evrópu.

Danska blaðið greinir loks frá því að íslenska bankakerfið sé margfalt stærra en íslenska hagkerfið eftir fjárfestingaæði síðustu ára. Efnahagsreikningur íslensku bankanna nemi áttfaldri landsframleiðslu síðasta árs.